Góðborgarar bera ábyrgðina

Greinar

Við höfum ónýta yfirstétt í landinu, getulausa kontórista, sem ráðnir eru á vegum vinnumiðlunar Framsóknarflokks til að halda verndarhendi yfir helmingaskiptafélagi kolkrabba og smokkfisks, svo sem sást, þegar ráðherrasonur var ráðinn samkeppnisstjóri til að hindra afskipti í stíl olíumálsins.

Ástæðan fyrir því, að við höfum aumingja í yfirstétt og landsfeður, sem haga sér eins og capi í bófaflokkum, er einföld. Það er sá helmingur landsmanna, sem vill ekkert ljótt sjá. Sem telur, að gefi guð einhverjum embætti, þá gefi hann honum líka skilning. Sem telur leiðtogana hæfa.

Við sjáum þetta fólk alls staðar. Það kaupir Moggann, telur hann vera viðmiðun í blaðamennsku, þótt slíkt blað þekkist ekki annars staðar á Vesturlöndum. Það hafnar afskiptum af því, sem kölluð eru einkamál, vill að blöð séu ekki ónærgætin eða hnýsin, að þau efist ekki um skinhelgina.

Þetta eru íhaldssamir góðborgarar, sem eiga glerkýr og postulínshunda, þar á meðal sósíalistar sem grétu gleðitárum, er Mogginn tók fyrst grein þeirra til birtingar eða Svavar var gerður að sendiherra. Þetta eru patrísear, sem líta niður á plebeja, vilja ekki vita, að þeir séu til.

Það fer til dæmis mjög í taugar þessa fólks, að til sé dagblað, sem tekur ekki mark á yfirstéttinni, ekki frekar en Svetóníus á tíma Rómarkeisara. Dagblað, sem daglega veltir við steinum og sýnir borgurum þessa lands, hvort sem þeir vilja vita eða ekki, að fjölmargt er skrítið hér í landi.

Þar sem ríkissjóður gengur vel vegna sölu á innviðum ríkisins, er helmingur þjóðarinnar sáttur við stjórn yfirstéttarinnar á landinu. Hann mun endurkjósa Davíða og Halldóra endalaust út í eitt. Hann mun lesa Moggann til að frétta nafnlaus og myndarlaus tíðindi, fá geldfréttir.

Við lifum í landi, þar sem mótmælendur eru lokaðir inni nætur og daga, meðan barnaklámsfólki er samstundis sleppt. Við lifum í landi, þar sem stútar við stýri fá sömu dóma og barnaníðingar. Við lifum í landi, þar sem stjórnarflokkar ráða óhæfa kontórista samkvæmt helmingaskiptareglunni.

Það er utan við sýn þessa fólks, að fjölmiðlar geti verið öðru vísi en Mogginn, segi frá fólki með nöfnum og myndum, fólki, sem er öðru vísi en góðborgarar vilja, að fólk sé.

DV