Góðir gjaldeyrisrefir.

Greinar

Loðdýrarækt er skyndilega að verða meiriháttar atvinnugrein hér á landi, einkum refarækt. Til viðbótar við þau 86 refabú, sem rokið hafa upp á sárafáum misserum, er ætlunin að koma upp 60 nýjum í haust.

Færri komast þó að en vilja. Loðdýrarækt er háð leyfisveitingum, meðal annars vegna ýmissa krafa um mannvirki og aðra aðstöðu. Margir eru á biðlista, þótt miklu þurfi til að verja. 150 refa bú kostar svipað og 40 kúa fjós og hlaða.

Reynslan af minknum sýnir, að búast má við, að mörg þessi nýju bú fari halloka. Loðdýrarækt er enginn skjótfenginn gróði. Eins og allur rekstur yfirleitt byggist hún á góðri þekkingu og mikilli nákvæmni.

Þekking er af skornum skammti í landinu. Hún er tæpast nógu mikil til að standa undir hinni hröðu fjölgun búa. Bændaskólarnir hafa ekki haft aðstöðu til verklegrar menntunar, en hafa þó megnað að standa vel að bóklegri.

Svo mikið er í húfi í þessari nýju og spennandi atvinnugrein, að nauðsynlegt er að tengja betur saman bókvitið og askana. Bændaskólarnir þurfa fé til verklegrar kennslu og til námskeiða fyrir loðdýrabændur.

Veirusjúkdómur hefur leikið minkabúin grátt á undanförnum árum. Svo er nú komið, að einungis tvö eða þrjú bú eru eftir af átta, sem voru starfrækt á blómaskeiði minkaræktar. Þetta sýnir, hversu þekkingin er nauðsynleg.

Erfiðleikar minkaræktar hafa þó leitt til mikils árangurs á einu mikilvægasta sviðinu, blöndun loðdýrafóðurs. Tekizt hefur að finna blöndur, sem gefa svo góða raun, að íslenzkir refir verða þyngri og skinnmeiri en aðrir.

Fiskúrgangur er 65% af fóðrinu og veldur því, að fóðurkostnaður þarf ekki að vera nema um helmingur af því, sem hann er í stærsta loðdýraræktarlandinu, Finnlandi. Þess vegna ætti okkar ræktun að geta orðið einkar arðbær.

Leiðbeinendur hafa oft bent á, að forskot okkar í lágum fóðurkostnaði byggist á, að loðdýrabúin séu í nágrenni fiskvinnslustöðva. Þannig sparast akstur, frystigeymslur og önnur aðstaða, sem fylgir vegalengdum og tímatapi.

Því miður virðast refabúin dreifast allt of mikið, bæði inn til lands og út um öll héruð. Bezt væri að hafa þau nokkur saman í nágrenni fiskvinnslustöðva, svo að þau hafi bæði ódýrt fóður og sameiginlega aðstöðu.

Hins vegar væri rétt að dreifa áhættunni. Við megum ekki einblína á blárefinn, heldur leyfa einnig ræktun á silfurref. Ennfremur þarf að efla ræktun á mink og ullarkanínum, svo að erlendar verðsveiflur í einstökum greinum valdi minna raski.

Við megum alltaf búast við tímabundinni offramleiðslu vegna sveiflna í eftirspurn. En offramleiðsla verður seint af okkar völdum, því að íslenzk framleiðsla verður aðeins dropi í heimshafið, þótt loðdýrarækt margfaldist hér.

Refaskinn hafa fallið í verði um 35%. Samt er tiltölulega lítið tap á mörgum refabúum, sem tóku til starfa um síðustu áramót og fengu því verðfallið í hausinn á viðkvæmasta tíma. Þetta sýnir, að afkoman getur orðið góð.

Loðdýraræktun byggist hvorki á innflutningsbanni loðskinna, né á niðurgreiðslum, ríkisstyrkjum og útflutningsuppbótum. Hún er fráhvarf frá hefðbundnum landbúnaði yfir í útflutningsiðnað, sem mokar inn í landið beinhörðum gjaldeyri.

Jónas Kristjánsson

DV