Fimbulkuldi verður hlutskipti Íslendinga og annarra þjóða við norðanverðar strendur Evrópu næstu áratugina samkvæmt viðvörun brezka hafrannsóknaráðsins, sem birtist í Science í fyrradag. Golfstraumurinn, sem hefur vermt Ísland og þessar strendur, er farinn að gefa sig, hefur þegar minnkað um 30%.
Þetta er meðal annars afleiðing aukinnar mengunar af völdum manna, aukins útblásturs gróðurhúsalofttegunda. Af þeirri sömu ástæðu hefur sjórinn hitnað í og við Mexikóflóa og valdið miklum fjörkipp í hvirfilbyljum, þar sem frægastur varð sá, sem gerði New Orleans óbyggilega um tíma í haust.
Þungi Golfstraumsins hefur verið mældur síðan 1954 og hélzt hann næsta stöðugur til 2003. Ári síðar linaðist hann og enn frekar á þessu ári. Brezka hafrannsóknastofnunin telur þetta geigvænlegt ferli, sem geti leitt til að andrúmsloftið í Bretlandi kólni á einum áratug um fimm gráður á celcius.
Í lífi jarðar verða alltaf sveiflur, þar á meðal í hita og straumum. Auk náttúrulegra sveiflna eru að koma til sögunnar hastarlegri sveiflur af mannavöldum, sem stafa af aukinni umsýslu mannkyns, aukinni orkunotkun og ýmsum aukaefnum, sem losuð eru frá umferð og iðnaði út í andrúmsloftið.
Golfstraumurinn hefur hingað til vermt strendur Íslands og valdið óvenjulega háu hitastigi í samanburði við norðlæga hnattstöðu landsins og góðum fiskveiðum á mörkum heita og kalda sjávarins. Ef straumurinn er farinn að gefa eftir, getur það haft snögg og geigvænleg áhrif á lífið í landinu.
Heimsendaspár eru ekki nýjar af nálinni og hafa jafnan skotið yfir markið. Fræðilegar heimsendaspár hafa í ýmsum tilvikum leitt til mótaðgerða, sem hafa dregið úr eða eytt óheillaáhrifum. Til dæmis notum við nú mun vistvænni kæliskápa en áður og erum að fikra okkur inn í vetnisöld.
Að þessu sinni er það viðurkennd ríkisstofnun í Bretlandi, sem varar með ýmsum fyrirvörum við hnignun Golfstraumsins. Við þurfum að taka mark á því. Við þurfum að búa okkur undir vond tíðindi og vinna á alþjóðavettvangi að strangari aðgerðum og reyna að yfirbuga andstöðu Bandaríkjanna.
Sagnfræðileg dæmi eru um, að heilar þjóðir hafi neitað að viðurkenna breytingar á umhverfinu og haldið áfram að haga sér eins og ekkert hafi í skorizt. Og hreinlega dáið út.
DV