Gölluð glansmynd
Aldraðir munu smám saman hætta að vera baggi á samfélaginu, af því að við höfum sérstakt lífeyriskerfi, þar sem fólk safnar sjálft fyrir lífeyri, sem safnast upp, en streymir ekki gegnum kerfið frá vinnandi fólki og skattgreiðendum til eftirlaunafólks. Þetta ágæta kerfi er þegar farið að virka.
Eftir nokkra áratugi mun meirihluti þeirra, sem hætta að vinna, áfram hafa óbreytt lífskjör af uppsöfnuðum lífeyri sínum. Þeir munu geta keypt vörur og þjónustu, hvernig sem árar að öðru leyti. Þeir munu verða kjölfesta samfélagsins, því að peningar þeirra munu hringsóla í efnahagslífinu.
Erlendu gegnumstreymis- og ríkisrekstrarkerfin gera ekki ráð fyrir þeirri staðreynd, að vestrænar þjóðir eru farnar að eldast. Senn verða of fáir vinnandi menn og skattgreiðendur að sjá fyrir of mörgum gamalmennum. Slík kerfi geta að lokum ekki þjónað hlutverki sínu og verða að skera niður lífeyri.
Uppsöfnunarkerfið gildir því miður ekki um alla. Ríkið tekur ekki þátt í því. Það á ekki fyrir skuldbindingum sínum við Lífeyrissjóð opinberra starfsmanna, heldur hyggst spýta inn í hann peningum úr gegnumstreymi fjármagns á hverjum tíma. Það hyggst láta skattgreiðendur framtíðarinnar borga sukkið.
Auðvitað á ríkið að leggja jafnóðum inn fyrir skuldbindingum sínum eins og aðrir vinnuveitendur í þjóðfélaginu. Þannig myndast traust tekjuflæði, óháð sviptingum á borð við misræmi í aldursþróun þjóðarinnar, sem hafa áhrif á tekjur ríkisins. Engin ástæða er til, að ríkið skerist úr leiknum.
Uppsöfnunarkerfið gildir ekki heldur fyrir öryrkja og atvinnulausa. Lífeyrir er ekki reiknaður í bótum á þessum sviðum. Auðvitað þarf að meðhöndla þessar tekjur fólks eins og aðrar tekjur þess, svo að öryrkjar og atvinnuleysingjar séu ekki upp á ríkið komnir, þegar þeir komast á aldurinn.
Ríkisvaldið hefur tækifæri til að laga stöðu sína gagnvart ríkisstarfsmönnum, öryrkjum og atvinnuleysingjum, þegar það selur Símann. Tekjurnar af sölunni má nota til að greiða fyrir uppsafnaðar syndir fortíðarinnar á þessum þremur sviðum og hafa framvegis hreint borð frá degi til dags.
Það er gott þjóðfélag, sem tryggir framtíðina og jöfnuð í framtíðinni. Það er gott þjóðfélag, sem hefur jafnvægi í uppgjöri kynslóðanna, þannig að hver kynslóð borgi fyrir sig og taki eins og áður þátt í að hjálpa jafnöldrum, sem lenda í vandræðum í lífinu. Ísland getur orðið gott þjóðfélag.
Glansmyndin, sem nýlega var gefin af væntanlegri stöðu aldraðra í þjóðfélaginu, má ekki láta menn gleyma, að allt of margir eru enn utan við ódáinsakra uppsöfnunarkerfis.
Jónas Kristjánsson
DV