John Naughton skrifar í Observer í dag um kaup leitarvélarinnar Google á Pyra, sem var lykillinn að vinsældum “blogging”, dagbóka einstaklinga á veraldarvefnum. Google hefur á rúmlega tveimur árum orðið að feiknarlega vinsælli leitarvél og rekur þar að auki fréttasöfnunarvefinn news.google, sem ég nota á hverjum degi. Öfugt við önnur netfyrirtæki hefur Google verið rekið með hagnaði frá fyrsta degi. Í greininni rekur Naughton þróun bloggsins og hvernig það birtir í ýmsum tilvikum traustari og nákvæmari fréttir en hinir hefðbundnu fjölmiðlar. Þetta er orðið sérstaklega mikilvægt, síðan bandarískir fjölmiðlar ákváðu, að hlutverk þeirra væri ekki lengur að segja fréttir, heldur að selja stríð. Hann minnir á, að Google keypti í febrúar allan Usenet logginn frá Deja og þar með alla gamla frétta- og skoðanavefi á vefnum allt aftur til áttunda og níunda áratugarins. Hann telur, að kaupin á Pyra hljóti að vera skynsamleg, úr því að Google sé að verki, og muni leiða til, að fréttir og skoðanir í dagbókum einstaklinga verði aðgengilegri á vefnum. Þá mega hefðbundnir frétta- og skoðanamiðlar fara að vara sig.