Google ögrar harðstjórum

Fjölmiðlun

Google hefur ákveðið að hætta ritskoðun leitar á vefnum í Kína. Neitar að taka þátt í kínverska stríðinu gegn upplýsingum til almennings. Fyrirtækið hefur til dæmis síað út texta um mannréttindi og fjöldamorðin á Torgi hins himneska friðar. Mörg fyrirtæki í upplýsingatækni beygja sig undir kröfur kínverskra stjórnvalda og Google var eitt þeirra. Hefur sætt meira ámæli en önnur, því að ritskoðun stríðir gegn einkunnarorðum þess, “Don´t be evil.” Nú má búast við, að Google verði rekið frá Kína. Aðgerð þess gegn ritskoðun í Kína, stærsta internet-lands í heimi, er fágætur sigur fyrir mannréttindi.