Gorbatsjov-dagar bænda

Greinar

Bændur tala ekki lengur einum rómi fyrir hinu sjálfvirka afsetningar- og verðlagningarkerfi, sem hefur verndað þá fyrir umhverfi sínu í liðlega þrjá áratugi. Sumir vilja sættir við neytendur og skattgreiðendur og enn aðrir vilja horfast í augu við veruleikann.

Á nýloknum fundum samtaka bænda í sauðfjár- og nautgriparækt og stéttarsambands þeirra komu fram sjónarmið, sem flokka mætti í þrennt. Í fyrsta lagi skjaldborg um fortíðina, í öðru lagi undanhald fyrir nútímanum og í þriðja lagi sókn inn í framtíðina.

Miðstefnan hefur tekið völdin hjá forustumönnum samtakanna. Þeir telja, að ekki sé pólitískur vilji í þjóðfélaginu til að leggja auknar byrðar á neytendur og skattgreiðendur til þess að sauðfjár- og nautgripabændur geti haldið áfram að framleiða eins og þá lystir.

Miðstefnumenn vilja taka mið af, að komið hefur í ljós, að sífellt verður dýrara fyrir neytendur og skattgreiðendur að sjá um, að allir bændur geti framleitt eins og þeim þóknast í skjóli þess, að þeir geti losað sig við allar afurðirnar og það á fastákveðnu verði.

Miðstefnumenn telja henta bændum að fallast á takmörk framleiðslumagns á móti því, að þjóðfélagið haldi áfram að verja um 8% af ríkisútgjöldum til stuðnings landbúnaði, sumpart í nýju formi, og sætti sig við, að neytendur fái ekki ódýrari afurðir frá útlöndum.

Þetta er einmitt stefna stjórnvalda um þessar mundir. Kostnaði skattgreiðenda er haldið óbreyttum, en peningunum er varið á annan hátt, sem síður hvetur til offramleiðslu. Jafnframt er kostnaði neytenda haldið óbreyttum, hátt yfir því, sem þekkist í útlöndum.

Sumir eru ósáttir við undanhaldið og vilja halda til streitu hinum ótakmarkaða framleiðslurétti, sem gilti í þrjá áratugi. Þeir neita að horfast í augu við kvótaskerðinguna, sem fer senn að verða tilfinnanleg, og saka forustumenn sína um svik við málstað landbúnaðarins.

Aðrir bændur eru hvorki á því, að halda beri dauðahaldi í steinrunna fortíð, eins og gert var til skamms tíma, né að rétt sé að fara á skipulegu undanhaldi, eins og byrjað er að gera um þessar mundir. Þeir vilja taka örlögin í eigin hendur og sækja inn í framtíðina.

Sumir þeirra hafa þegar gert þetta fyrir eigin reikning með því að færa sig úr hefðbundnum búgreinum yfir í starfsemi, sem er utan hins flókna landbúnaðarkerfis og nýtur ekki stuðnings neytenda og skattgreiðenda. Í þessum hópi eru ferðabændur og hrossabændur.

Aðrir standa upp á aðalfundum sauðfjár- og nautgripabænda og mæla með frjálsum markaði, meira að segja uppboðsmarkaði. Einn þeirra kvað upp úr með, að frjáls verzlun væri hluti af lýðræðinu og að hæpið væri fyrir menn að byggja afkomu sína á styrkjum.

Líkja má stöðu hefðbundins landbúnaðar við ástand Sovétríkjanna á Gorbatsjovs-tímanum. Þá hafði steinrunnu kerfi verið hafnað þar eystra og við tekið millibilsástand skipulegs undanhalds, áður en kerfið hrundi og friðsöm bylting lýðræðis og auðhyggju tók við.

Líklegt er, að skipulega undanhaldið verði ekki langvinnt í landbúnaði á Íslandi fremur en það var í sovézkum kommúnisma. Það leiðir til hraðrar tekjurýrnunar allra bænda, en ekki til þeirrar grisjunar, sem ein getur haldið uppi lífskjörum þeirra, sem eftir standa.

Millileiðin mun bresta. Annaðhvort reyna bændur að komast til baka á flótta inn í verndað gróðurhúsið eða þeir reyna að brjótast út úr því til frelsis.

Jónas Kristjánsson

DV