Gorbatsjov er einskis virði

Greinar

Sem eftirmenn valdaræningjanna í Sovétríkjunum hefur Gorbatsjov Sovétforseti skipað aðstoðarmenn þeirra, sem meira eða minna eru sama sinnis og valdaræningjarnir. Hann hefur ekki skipað neina menn, sem gengu fram fyrir skjöldu til að hindra valdaránið.

Þetta segir allt, sem segja þarf um Gorbatsjov Sovétforseta. Hann er og verður fulltrúi þeirrar yfirstéttar, sem hefur rústað efnahag og álit Sovétríkjanna. Hann er að reyna að halda í völd nómenklatúrunnar með mildari aðferðum en valdaræningjarnir töldu beztar.

Það var Gorbatsjov sjálfur sem studdi til áhrifa einmitt þá menn, sem stóðu fyrir hinu misheppnaða valdaráni. Það voru hans eigin skjólstæðingar, sem ætluðu að taka völdin. Valdaráninu var ekki beint gegn Gorbatsjov, heldur lýðræðisöflum í ríkjum Sovétríkjanna.

Nú mun Gorbatsjov reyna að færa klukkuna aftur á bak til þess tíma, sem var fyrir byltingu. Hann mun reyna að nýju að finna leið til að bæta efnahag Sovétríkjanna án þess að láta af hagstefnu, sem er í eðli sínu ófær um að bæta haginn. Hann leggst í gamla farið.

Almennt er viðurkennt, að ráðamenn Austur-Evrópu muni eiga í miklum erfiðleikum með að bæta hag sinna landa, þótt þeir séu sannfærðir markaðshyggjumenn og hafi því ekki hugmyndafræðilegan myllustein um hálsinn á sama hátt og Gorbatsjov og fylgismenn hans.

Hagþróun er vonlaus í Sovétríkjunum meðan Gorbatsjov er þar við völd með gömlum flokksmönnum, herforingjum, lögreglustjórum og leynilögreglustjórum. Þetta hafa ráðamenn á Vesturlöndum átt afar erfitt með að skilja. Þeir hafa stutt hann gegn lýðræðissinnum.

Seinheppnir ráðamenn á borð við Bush Bandaríkjaforseta og Mitterrand Frakklandsforseta hafa opinberlega komið fram á móðgandi hátt við Jeltsín Rússlandsforseta til að auglýsa stuðning sinn við Gorbatsjov. Þeir tóku ranga ákvörðun, svo sem ráðamönnum er lagið.

Munurinn á Jeltsín og Gorbatsjov er þríþættur. Í fyrsta lagi hefur Jeltsín reynzt standa eins og klettur úr hafinu gegn draugum fortíðarinnar, sem hafa alltaf verið við barm Gorbatsjovs, eru það enn og verða áfram. Það var á Jeltsín, sem valdaránið brotnaði.

Í öðru lagi er Jeltsín maður fólksins, en Gorbatsjov maður nómenklatúrunnar. Jeltsín kærir sig ekki um villur, lúxusbíla og flokksmannabúðir fyrir sjálfan sig. Hann skynjar fólkið og hagar sér í samræmi við það, en Gorbatsjov er og verður í fílabeinsturni flokksins.

Í þriðja lagi hefur Jeltsín haft lag á að laða að sér færustu sérfræðinga í Sovétríkjunum. Mánuðum saman hefur legið samfelldur straumur slíkra manna úr herbúðum Gorbatsjovs yfir í herbúðir Jeltsíns. Eftir sitja undirmálsmenn og kerfiskarlar hjá Gorbatsjov.

Jeltsín hefur þannig reynzt vera í fyrsta lagi staðfastur, í öðru lagi vinsæll og í þriðja lagi ráðþægur. Gorbatsjov hefur hins vegar verið á sífelldu iði og bandalögum út og suður, fyrirlitinn af flestum heima fyrir, og ófær um að hlusta að nokkru gagni á vestræna hagfræði.

Vestrænir ráðamenn mega nú ekki ítreka fyrri mistök og fara að hjálpa Gorbatsjov við að tína saman leifar nómenklatúrunnar til að hanga í vinnubrögðum og ímyndunum fortíðarinnar. Þeim ber að beina athyglinni að Jeltsín og hans mönnum, sem hugsa vestrænt.

Sovétríkin og Gorbatsjov eru siðferðilega, hugmyndafræðilega og efnahagslega hrunin. Í stað þeirra eru að rísa vestræn lýðræðisríki og menn á borð við Jeltsín.

Jónas Kristjánsson

DV