Gorbatsjov fælir

Greinar

Rússneskumælandi kjósendur í Lettlandi og Eistlandi greiddu atkvæði með sjálfstæði í opinberri skoðanakönnun um helgina. Stuðningurinn varð meiri en sjálfstæðissinnar reiknuðu með, meðal annars vegna stuðnings meirihluta kjósenda á rússneskum svæðum.

Í Lettlandi er helmingur íbúanna ekki af lettneskum ættum, heldur rússneskum og einnig pólskum. Búast hefði mátt við efasemdum þessa fólks um sjálfstæði, sem hugsanlega gæti gert rússneskumælandi fólk að annars flokks borgurum í sjálfstæðu, lettneskumælandi ríki.

Þeir, sem eru aðfluttir og eiga rússnesku að móðurmáli, hafa hingað til haft ákveðin forréttindi í Eystrasaltsríkjunum. Sovétstjórnin hefur reynt að magna þetta fólk gegn sjálfstæði með grýlunni um, að því muni farnast illa í sjálfstæðum þjóðríkjum við Eystrasalt.

Sjálfstæði fékk 75%-80% fylgi í Lettlandi eins og í Eistlandi, þar sem styrkur heimatungumálsins er meiri. Þetta segir einfaldlega, að ofan á eðlilega þjóðernisvitund Letta og Eista bætist við sú trú hinna, sem ekki eru af þessum þjóðum, að sjálfstæði leiði til betra lífs.

Jafnvel þótt Rússar í Eistlandi og Lettlandi sjái fram á að þurfa að læra tungumál staðarins og laga sig að háttum heimaþjóðanna, vilja þeir ekki vera í skjóli móðurlandsins. Þetta verður ekki skilið nema með hliðsjón af efnahagslegum væntingum rússneskra kjósenda.

Rússar í Eistlandi og Lettlandi átta sig á, að Sovétríkin eru efnahagslega komin að fótum fram. Þeir kjósa heldur að efla sjálfstæði Eistlands og Lettlands í von um, að sjálfstæð geti þessi ríki tekið upp hagstefnu, sem leiðir til farsældar og efnahagslegs öryggis fólks.

Stjórn Gorbatsjovs er um þessar mundir að gera illt verra í efnahagsmálum Sovétríkjanna. Þar var til skamms tíma alveg einstaklega óhæfur fjármálaráðherra, Valentin Pavlov, sem lét prenta rúblur í óða önn til þess að gera ríkinu kleift að vera með 10% halla.

Gorbatsjov verðlaunaði Pavlov fyrir öngþveitið í ríkisfjármálunum með því að gera hann að forsætisráðherra. Fyrsta verk Pavlovs í nýja embættinu var að innkalla rúblurnar sínar og eyða þar með traustinu, sem einhverjir kunna að hafa borið til gjaldmiðilsins.

Síðan bætti Pavlov um betur. Hann setti fram broslega samsæriskenningu um, að vestrænir bankar hefðu safnað rúblum til að steypa Gorbatsjov úr sessi. Þessu fylgdu vanstilltar stríðsyfirlýsingar hans gegn vestrænum bröskurum, meðalgöngumönnum og gróðapungum.

Í rauninni hafa Vesturlönd í óða önn verið að reyna að hjálpa Sovétríkjunum og tryggja Gorbatsjov í sessi. Miklu fjármagni hefur verið varið til að hjálpa honum til að efla væntingar fólks, svo að Sovétríkin yrðu traust ríki og helzt góður bandamaður í alþjóðamálum.

Hinn nýi yfirmaður sovézku leyniþjónustunnar, Vladimir Kryusjov, hefur sagt, að hin vestræna fjárhagsaðstoð miði við að grafa undan Sovétríkjunum. Þannig hefur Gorbatsjov valið til æðstu valdastarfa þá menn, sem helzt eru andvígir vestrænni kaupsýslu.

Innreið Pavlovs og Kryusjovs leiðir að sjálfsögðu til þess, að vestrænir bankar, fyrirtæki og ríkisstjórnir kippa að sér hendinni. Það tekur því ekki að hjálpa Gorbatsjov, ef menn fá í staðinn ásakanir um glæpi og leyniþjónustan er send í útibú vestrænna fyrirtækja.

Stuðningur Rússa í Eistlandi og Lettlandi við sjálfstæði þessara ríkja stafar af, að þeir skilja, að Gorbatsjov er að fara með Sovétríkin á hausinn.

Jónas Kristjánsson

DV