Gorbatsjov og gróðinn

Greinar

Gorbatsjov Sovétleiðtogi er að reyna að efla hagstyrk Sovétríkjanna og auka hagkvæmni efnahagslífsins. Hann hefur áttað sig á, að til þess þarf hann að virkja gróðahvatir og leyfa markaðsöflum að leysa miðstýringu af hólmi. Um þetta standa deilur í flokki hans.

Aðgerðir Gorbatsjovs stefna ekki að annarri þróun í átt til lýðræðis og mannúðar en nauðsynleg kann að reynast til að ná hinum hagrænu markmiðum. Opnun í þjóðfélaginu er ekki markmið út af fyrir sig, heldur ill nauðsyn til að gera Sovétríkin arðsamari og ríkari.

Hinn villimannlega styrjöld Sovétríkjanna í Afganistan er rekin af sömu hörku og fyrr. Fólki hefur ekki verið gert auðveldara að flytjast frá Sovétríkjunum. Ekkert lát er á misþyrmingum andófsmanna á geð veikrahælum. Leppríkin eru tugtuð í sama mæli og áður.

Jákvæð áhrif af hagstefnu Gorbatsjovs sjást helzt í samskiptum austurs og vesturs. Frumkvæði Sovétríkjanna í tilraunum til samkomulags um takmörkun og samdrátt vígbúnaðar er mikilvægur þáttur í að beina afli atvinnulífsins að hagkvæmari verkefnum.

Hin hagrænu sjónarmið, sem eru að baki þíðustefnunnar, draga ekki úr gildi hennar fyrir Vesturlönd. Atlantshafsbandalagið þarf að mæta frumkvæðinu á virkari hátt en gert hefur verið að undanförnu og láta þíðuna leiða til samninga um hjöðnun vígbúnaðar.

Heima fyrir má búast við frekari deilum um hina nýju hagstefnu Gorbatsjovs. Yfirstétt kommúnistaflokksins mun ekki átakalaust sleppa neinu umtalsverðu af völdum sínum og lífsþægindum. Þegar hefur verið reynt að spilla fyrir breytingunum og tefja þær.

Herferðin gegn ofneyzlu áfengis hefur gengið fremur illa. Ennfremur hafa tilraunir til að leyfa mönnum að stunda brask utan vinnu í mörgum tilvikum haft þveröfug áhrif, því að kerfið hefur einmitt tekið þá hastarlega í gegn, sem ætluðu að hafa hag af nýbreytninni.

Hinir fjölmörgu og valdamiklu, sem hafa hag af kyrrstöðu, bíða þess færis, að í ljós komi, að efnahagsávinningur breytinganna reynist lítill, en herkostnaður sé of þungbær, til dæmis í formi of mikillar tilætlunarsemi hinnar nýju miðstéttar, sem eflist í breytingunum.

Mikil valdastreita út af þessu getur á óbeinan hátt aukið ófriðarhættuna í heiminum. Það er gamalkunnug saga, að menn reyna að draga úr ágreiningi inn á við eða breiða yfir hann með því að draga upp ýkta mynd af erlendum óvini, sem menn verði að sameinast gegn.

Ef hins vegar Gorbatsjov tekst að herma vel eftir Ungverjum og Kínverjum í að virkja markaðshyggjuna, er óhjákvæmilegt, að sovézka þjóðfélagið fari að ókyrrast og vilji losna úr fleiri spennitreyjum. Það getur leitt til friðsamari og hættuminni Sovétríkja í framtíðinni.

Gorbatsjov er að hreinsa flokk, ríkisbákn, her og leyniþjónustu. Hafin eru endurmenntunarnámskeið til að sníða nýja tegund stjórnenda. Alls staðar er þörf á menntuðu fólki til að gera Sovétríkjunum kleift að fylgja efnahagslega í humátt á eftir vestrinu.

Þetta hámenntaða fólk sættir sig ekki endalaust við að hafa ekkert að segja í stjórnmálum og þurfa að sæta ömurlegum fjölmiðlakosti. Það fer að heimta frelsi til að hafa fjölbreyttar skoðanir og til að njóta fjölbreytts upplýsingaflæðis utan kerfis ríkis og flokks.

Gorbatsjov getur misst völdin eins og Krjústjov. Tilraun hans er vörðuð hættum, bæði heima fyrir og út á við. En hún getur einnig reynzt efla frelsi og frið.

Jónas Kristjánsson

DV