Svo virðist sem fullorðið fólk í ábyrgðarstöðum í þjóðfélaginu hafi ímyndað sér, að GATT-frumvarp ríkisstjórnarinnar mundi leiða til innflutnings á erlendri búvöru á 30% hærra verði en innlend búvara. Þetta fólk hefur nú reiknað dæmið betur og segist hafa verið blekkt.
Þeir, sem reyndari eru, vissu alltaf, að aldrei stóð til að leyfa innflutning. Frumvarpssmiðir höfðu það verkefni að búa svo um hnútana, að enginn kostur væri á innflutningi erlendrar búvöru, jafnvel þótt það jafngilti mörg hundruð prósent tolli og allt upp í 1400% toll.
Markmið frumvarpsins var að fullnægja formsatriðum, en ekki efnisatriðum í samkomulagi, sem Ísland hafði samþykkt í fjölþjóðlegu viðskiptasamstarfi á vegum GATT. Markmið frumvarpsins er lögfræðileg aðferð við að leyfa innflutning búvöru án þess að leyfa hann.
Að baki frumvarpsins eru stóru framsóknarflokkarnir tveir. Þeir hafa báðir jafnan sýnt, að þeir fyrirlíta neytendur og taka jafnan 100% afstöðu gegn þeim. Þetta er ósköp eðlilegt, því að þetta gera neytendur sjálfir, sem hafa áratugum saman fúslega látið hafa sig að fífli.
Hátt matarverð á Íslandi er ekki efnahagslegur vandi, heldur pólitískur. Kjósendur styðja jafnan mest og bezt þá flokka, sem líklegastir eru til að halda matarverði í landinu sem hæstu. Þetta gera þeir, þótt það kosti hverja fjögurra manna fjölskyldu 320.000 krónur á hverju ári.
Allir kjósendur eru líka neytendur. En kjósendur líta ekki á hagsmuni neytenda sem mikilvægan þátt í hagsmunum sínum. Margir þeirra vilja, að hagsmunir neytenda séu teknir fram yfir sérhagsmuni, en sá vilji er ekki svo ákveðinn, að hann ráði pólitískri afstöðu.
Ef kjósendur greiddu atkvæði sem neytendur, mundu þeir rústa gamla flokkakerfið. En það gera þeir ekki. Þótt boðið yrði upp á sérstakan stjórnmálaflokk neytenda, styddu þeir hann ekki. Þeir styðja ekki heldur Alþýðuflokkinn, því að allir vita, að hann svíkur.
Til varnar hagsmunum neytenda eru samtök sérviturra neytenda og örfáir kaupmenn, sem hafa hagnazt á að gæta hagsmuna viðskiptavina sinna. Þessir aðilar hafa hátt um þessar mundir, af því að ríkisstjórnin er greinilega að fara í kringum anda GATT-samningsins.
Nöldrið er tekið upp í fjölmiðlum, þar sem það rís og hnígur. Hljómgrunnur í þjóðfélaginu er nánast enginn. Kjósendur vilja láta nauðga sér sem neytendur eins og þeir hafa jafnan látið gera. Þeir vilja leyfa helztu stjórnmálaöflum landsins að traðka á sér á hefðbundinn hátt.
Íslendingar hafa margsinnis séð lotur í umræðum og deilum um mikilvægi hagsmuna neytenda annars vegar og landbúnaðarins sem kerfis hins vegar. Jafnan hefur niðurstaðan orðið sú, að hagsmunir neytenda verða 100% að víkja fyrir hagsmunum landbúnaðarkerfisins.
Núna stendur ein slík lota. Að henni lokinni mun kerfið halda áfram sinn vanagang af algeru tillitsleysi við hagsmuni neytenda. Við því er ekkert að segja. Þjóðin vill hafa þetta svona. Hún er meira en fús til að borga herkostnaðinn af yfirgangi landbúnaðarkerfisins.
Reikningsdæmi GATT-frumvarpsins liggja á borðinu, alveg eins og önnur reikningsdæmi landbúnaðarins. Samanlagt segja þessi dæmi, að hver fjögurra manna fjölskylda í landinu verður að greiða 320.000 krónur á ári til að halda uppi vonlausu batteríi landbúnaðar.
Fólk vill þjást í þágu landbúnaðarkerfisins. Það er kjarni málsins. Þess vegna er frumvarp ríkisstjórnarinnar ofur eðlilegt. Það er raunar gott á neytendur.
Jónas Kristjánsson
DV