Gott á ykkur

Greinar

Dómur Hæstaréttar í Vatneyrarmálinu sendir þau skilaboð til ykkar, að þið berið sjálf fulla ábyrgð á gerðum ykkar og aðgerðaleysi, en getið ekki vænzt þess, að kæruglaðir sérvitringar og dómskerfið hlaupi í skarðið. Þjóðin fái þau lög, sem hún eigi skilið.

Þótt úrskurðurinn verði kærður til fjölþjóðlegra dómstóla, er óvíst, að það breyti miklu. Þeir kunna að komast að sömu niðurstöðu og Hæstiréttur, að fiskveiðistjórnarlögin rúmist innan ramma réttlætis, enda er algengt, að lög og reglur skekki jafnræði borgara.

Hefð er fyrir byggðastefnu, sem stríðir gegn jafnræði. Komið hefur verið á fót greiðsluhlutdeild notenda ýmissar þjónustu ríkisins, sem leiðir til þess, að fátæklingar nota þjónustuna síður en efnafólk. Einkavæðing hefur oft reynzt vera einkavinavæðing.

Ýmis fleiri dæmi má rekja um, að margs konar mismunun rúmast innan ramma þjóðskipulagsins, þótt erlendir dómstólar hafi í öðrum tilvikum þrengt að möguleikum löggjafarvalds og framkvæmdavalds til að taka sérhagsmuni fram yfir almannahagsmuni.

Í hinum vestræna heimi ríkir sífelld barátta milli sérhagsmuna og almannahagsmuna, þar sem hinir fyrrnefndu eru studdir góðu skipulagi og miklum fjármunum. Dæmi um það er yfirburðastaða framleiðenda handvopna og tóbaks í Bandaríkjunum.

Ef kjósendur eru eins sannfærðir um nauðsyn réttlætis og jafnræðis í fiskveiðistjórnun og ítrekaðar skoðanakannanir benda til, geta þeir einfaldlega látið þá sannfæringu stjórna gerðum sínum, þegar þeir taka þátt í kosningabaráttu og kjósa sér fulltrúa.

Fyrir síðustu kosningar var meira eða minna ljóst öllum þeim, sem skilja vildu, hvaða stjórnmálamenn og hvaða stjórnmálaflokkar styddu núverandi yfirburðastöðu sérhagsmuna í fiskveiðistjórnun og hverjir ætluðu að láta þá víkja fyrir almannahagsmunum.

Eyjabakkamálið er enn alvarlegra dæmi um vannýtta möguleika kjósenda á að hafa áhrif á gang mála. Fyrir síðustu kosningar var meira eða minna ljóst öllum þeim, sem höfðu skilningarvitin opin, hverjir ætluðu að bera umhverfissjónarmiðin ofurliði.

Það voru ekki kjósendur, sem stöðvuðu fórnfæringar Fljótsdalsvirkjunar. Að hluta voru það umhverfisvinir, sem skutu Norsk Hydro skelk í bringu, en að stærstum hluta voru það peningalegar staðreyndir brostinna gróðavona, sem tóku fram fyrir hendur Alþingis.

Í báðum þessum tilvikum var eindreginn vilji þjóðarinnar í annarri metaskálinni fyrir og eftir alþingiskosningarnar í fyrra, en kjósendur ákváðu samt að leggja lóð sitt í hina metaskálina. Það þýðir svo ekki að koma á eftir og kvarta yfir alþingismönnum.

Ef kjósendur vilja láta helztu hjartans mál sín, eins og þau mælast í skoðanakönnunum, ná fram að ganga, verða þeir að láta þau njóta forgangs fram yfir önnur sjónarmið, þegar þeir velja sér stjórnmálaflokka og alþingisfulltrúa. Þetta hafa þeir ekki gert.

Dómur Hæstaréttar í Vatneyrarmálinu er þörf áminning til kjósenda um, að enginn getur fjarlægt pólitíska ábyrgð þeirra á réttlæti og ranglæti, jafnræði og mismunun. Hæstiréttur hefur staðfest fullveldi Alþingis, sem starfar á vegum kjósenda sjálfra.

Erlendis refsa kjósendur stundum flokkum og fulltrúum sérhagsmuna á kjördegi, en hér fá þeir að ólmast að vild. Þið eruð ykkar eigin gæfu smiðir.

Jónas Kristjánsson

DV