Mikill munur er að fá Egil Helgason aftur í hóp þeirra, sem skrifa skoðanir á vefinn. Hann var búinn að vera í allt of löngu hléi í sumar. Ég er að vísu ekki sammála nema helmingnum af því, sem hann segir. En það skiptir engu í samanburði við ágætan stíl hans og skilning á þjóðarsálinni. Góð þótti mér fyrirsögnin Finn Air um kaup Finns Ingólfssonar á Flugleiðum með hjálp guðsmanns Framsóknar í Seðlabankanum. Egill hefur að vísu takmörkuð áhugasvið, en ber höfuð og herðar yfir skjallbandalög á vefnum. Raunar er hann eini vefhöfundurinn, sem ég nenni að lesa að staðaldri.