Gott fólk eða vont?

Greinar

“Eru því flestir aumingjar og illgjarnir, þeir sem betur mega”, orti Bólu-Hjálmar um nágranna sína. Hann var fremur bitur maður, svo sem skáldskapur hans sýnir á köflum. En dálítill sannleikur er í orðum hans, því að mannkynið er langt frá að vera fullkomið.

Til mannkyns verður að telja Saddam Hussein, sem er með verstu mönnum, er hafa komizt til áhrifa. Hann sameinar grimmd og geðveiki í slíkum mæli, að minnir á Timur i Leng, sem varð frægur að endemum á 14. öld. Báðir létu hlaða kesti úr líkum fórnardýra sinna.

Um allan heim er verið að brjóta siðalögmál og reglur, sem byggjast á þeim. Saddam Hussein er ekki einn um hituna, þótt hann sé kunnastur þessa dagana. Hér á landi er töluvert af smáglæpamönnum, sem reyna að afla sér viðurværis með því að brjóta siðalögmál.

Ofbeldi hefur verið beitt á götum Reykjavíkur undanfarnar vikur. Vegfarendur geta átt á hættu, að ókunnugir ráðist fyrirvaralaust að þeim og misþyrmi þeim svo, að þeir bíði þess aldrei bætur. Löggæzlan heldur ekki uppi lögum og reglu á sumum stöðum og tímum.

Enn algengara er, að menn ljúgi og steli, svo sem stjórnmálin sýna. Ráðherrar heyja kosningabaráttu sína af almannafé og stæra sig jafnvel af því, að geta haldið fram röngum fullyrðingum á sannfærandi hátt. Eftir þessu höfði dansa svo limir stjórnmálalífsins.

Hugsjónakerfi, sem stefna að fullkomnu þjóðfélagi, gera ekki ráð fyrir mannlegum breyskleika. Tilraunir til að framkvæma slík kerfi leiða yfirleitt til valdatöku manna, sem þykjast vera beztir allra, en eru í rauninni verstu skúrkar, svo sem sovézka dæmið sannar.

Í Bandaríkjunum má oft þekkja pólitíska þrjóta á því, að þeir vefja sig þjóðfánanum og kyrja þjóðsönginn, svo notað sé líkingamál. Glæpamenn beita oft því bragði að stilla sér fremst í sveit þeirra, sem hampa fögrum og einkum þó viðurkenndum undirstöðureglum í siðum.

Lýðræði er afar heppileg aðferð til að hafa hemil á vandamálinu. Hæfni lýðræðis stafar ekki af, að það byggist á góðsemi og siðsemi fólks, heldur á því, að lýðræði skiptir um valdhafa á friðsaman hátt. Brottrekstur ráðamanna er grundvallaratriði í siðuðu þjóðfélagi.

Telja má Ísland vera í stórum dráttum siðað sem ríki, því að valdamenn koma og fara. Írak er hins vegar ekki siðað, af því að það kostar blóðbað og borgarastyrjöld að losna við geðsjúkan grimmdarsegg úr valdastóli. Sovétríkin eru einhvers staðar þarna á milli.

Engin tilviljun er, að lýðræði hefur þrifizt bezt á Vesturlöndum, þar sem samhliða hefur verið beitt markaðshyggju í viðskiptum. Markaðsbúskapur er afar sniðug aðferð við að virkja eigingirni manna til heilla fyrir samfélagið, þannig að ótrúleg verðmæti skapast.

Þar sem byggt er á ríkisrekstri eða samvinnubúskap í atvinnulífi, síast smám saman inn vandræði, sem rækilega hafa verið kortlögð í Austur-Evrópu og Sovétríkjunum. Það stafar af, að fögur fyrirheit sósíalisma og samvinnu duga ekki í heimi, þar sem gott og vont býr í fólki.

Markaðshyggjan byggist á raunhæfu mati á ófullkomleika mannkyns og felur í sér leið til að fella þrá manna í gróða og völd að sameiginlegum hagsmunum samfélagsins. Hún er vélin, sem knýr áfram velferðarríki lýðræðis og gerir þau að fyrirmynd þriðja heimsins.

Gott og vont býr í öllu fólki, ekki bara nágrönnum Bólu-Hjálmars. Lýðræði og markaður eru beztu leiðirnar til að búa til siðaðar auðþjóðir úr þessu hráefni.

Jónas Kristjánsson

DV