Þetta hefur verið gott ár fyrir íslenzka hestinn. Útflutningur er farinn að hressast að nýju eftir nokkurra ára lægð. Minnisstæð eru ýmis stórmót heima og heiman og ber þar hæst landsmótið. Keppnisreglur hafa verið samræmdar í alþjóðlega mynd. Skref hafa verið stigin í átt til kynbóta á nýjum sviðum, svo sem í spatti. Allt þetta og ýmislegt fleira sýnir okkur mynd af atvinnu- og áhugagrein, sem er í örum vexti.
Útflutningur hrossa hefur fundið botninn og er nú að skríða aftur upp að nýju. Enn er hann mun minni en á velgengnisárunum, áður en kæruleysi okkar gagnvart spatti og sumarexemi leiddi til langvinnrar lægðar. Nú eru sjáanleg merki þess, að fagráð í hrossarækt fari að taka á heilsuvandamálum, sem undanfarin ár hafa staðið í vegi fyrir trausti kaupenda á íslenzkum hestum. Vonandi leiðir brottför forvígismanns og hrossaræktarráðunautar ekki til endurnýjaðrar afneitunar á raunverulegum vanda.
Landsmót þessa árs var það bezta í sögunni. Nú efast enginn lengur um, að rétt hafi verið að fjölga landsmótum. Þetta er orðin einstæð veizla fyrir augað. Hún sogar til sín fleira fólk á tveggja ára fresti en hún gerði áður á fjögurra ára fresti. Velgengni þessa móts hefur stuðlað að auknum áhuga erlendis á gæðingakeppni. Þar voru slík mót áður næsta óþekkt, en eru nú farin að skjóta upp kolli á ýmsum stöðum.
Jafnframt hefur íþróttakeppni orðið alþjóðlegri á allra síðustu árum. Komið hefur til sögunnar meginlandsmót, sem gerir það sama fyrir þýzkumælandi heiminn og norrænu mótin hafa gert fyrir Norðurlönd. Við siglum fram á við í þremur greinum í senn, í hestaíþróttum, í gæðingakeppni og í kynbótakeppni.
Þetta var árið, þegar skriðan kom í samræmingu á kynbótasýningum. Íslenzka kerfið hefur nánast alls staðar verið innleitt, nema í Þýzkalandi, þar sem um helmingur hrossanna eru sýnd eftir íslenzkum reglum og reikningsaðferðum og helmingur eftir þýzkum reglum og reikningsaðferðum. Við erum að nálgast þá stund, að öll íslenzk kynbótahross, hvar sem er í heiminum, lúti sama mati sömu dómara.
Á sama tíma og önnur lönd taka upp íslenzkar reglur í kynbótadómum og gæðingadómum hefur Ísland ákveðið upp að taka upp alþjóðlegar reglur íþróttakeppninnar á Íslandi. Landsþing hestamannafélaga ákvað þetta á þingi sínu í haust. Það sýndi, að Ísland getur bæði gefið og þegið. Hér eftir færast deilur um breytingar á íþróttakeppnisreglum inn í sportnefnd alþjóðasamtakanna FEIF í stað þess að einoka tíma landsþinganna áratug eftir áratug.
Landssambandið hefur styrkt stöðu sína, einkum formaður þess, Jón Albert Sigurbjörnsson, sem tók eindregna afstöðu með FEIF-reglum, þegar horfur voru á víðtækri andstöðu vel skipulagðra einstaklinga. Enda hafði gengið sér til húðar sú stefna, að sífelld tilraunastarfsemi og sífelldar breytingar tröllriðu einni af íþróttum landsmanna, hestaíþróttum. Að lokum sáu landsþingsfulltrúar sjálfir, að þessi hringavitleysa gekk ekki lengur.
Löng ferðalög á hestum njóta vaxandi vinsælda meðal heimamanna og heimsækjenda. Þau kalla á aukin samskipti við aðra aðila, sem koma að málum afrétta og hálendis, vegagerðar og landmælinga. Þörf eru á auknu frumkvæði af hálfu hestamanna, svo að forusta um breytingar falli ekki í hendur þeirra, sem líta á ferðalög hestamanna sem afgangsstærð eða jafnvel óþarfan þátt í náttúru landsins. Reynslan sýnir, að hestamenn geta haft áhrif, en þeir þurfa að beita sér meira í samfélaginu.
Á næsta ári kemst Svíþjóð í sviðsljós heimsleikanna, sem jafnan eru þungamiðja hestamennskunnar á þeim árum, þegar landsmót eru ekki haldin. Fyrir áratug stóð Svíþjóð langt að baki Þýzkalandi og Danmörku í aðild að íslenzka hestinum, en hefur síðan farið hamförum á framabraut og stendur nú ekki að baki fremstu löndum. Mikil stemmning fylgir jafnan heimsleikum og má búast við, að svo verði einnig að þessu sinni.
Næsta ár mun einnig mótast af nýjum hrossaræktarráðunauti, hörðum aðgerðum gegn spatti í hrossastofninum og skrefum í átt til gegnsærra aðgerða gegn ófrjósemi í stofninum. Hryssueigendur munu ekki lengi enn sæta spöttuðum og ófrjóum stóðhestum. Loks má ekki gleyma, að allur heimur íslenzka hestsins bíður með óþreyju eftir læknisfræðilegri lausn á sumarexemi, sem enn heldur útflutningi hrossa í heljargreipum.
Jónas Kristjánsson
Eiðfaxi 10.tbl. 2004