GPS-punktar afhentir

Hestar

Jónas Kristjánsson:

Fyrstu GPS-punktarnir voru afhentir Landssambandi hestamannafélaga 27. maí sl. Myndin er tekin við það tækifæri. Þar sjást frá vinstri Jónas Kristjánsson, Sveinbjörn Jónsson, Baltasar Samper, Halldór Halldórsson og Þormar Ingimarsson. Baltasar, Þormar og Jónas afhentu punktana og Halldór, Sveinbjörn og Þormar tóku við þeim.

Landssambandið hefur sett á vef sinn, www.lhhestar.is, leiðbeiningar um vinnslu GPS-punkta fyrir gagnabanka, sem LH, Landmælingarnar og Vegagerðin hafa sett upp um reiðleiðir á Íslandi. Er ætlunin, að þessi gagnabanki verði öllum aðgengilegur á netinu frá og með næsta landsmóti hestamanna, sem verður á Hellu um mánaðamótin júní-júlí.

LH hvetur hestamenn til að senda sér GPS-punkta, sem allra fyrst. Helzt vilja menn fá ferilpunkta (track points) hverrar dagleiðar fyrir sig eða a.m.k. leiðarpunkta (waypoints) hennar, þar sem sjást öll mikilvæg atriði hennar, svo sem vöð, brýr, vörður, hlið, réttir og krossgötur. Mikilvægt er, að hestamannafélögin eða GPS-notendur heima í héraði taki sem fyrst slíka punkta í nágrenni við hesthúsahverfin og sendi LH, skjoni@simnet.is eða Landmælingum Íslands, ingunn@lmi.is .

Mikill fjöldi GPS-tækja er nú fáanlegur og hefur verðið farið stöðugt lækkandi. Nú er hægt að fá tæki fyrir innan við 20.000 krónur. Bezt eru tæki, sem hafa innbyggt Íslandskort og áttavita með leiðréttingu fyrir segulskekkju. Þau eru mikið öryggistæki í ferðalögum, ef brestur á með þoku. Menn sjá þá áttirnar leiðréttar og geta séð, hvar er næsti kofi.

Hafa verður í huga, að GPS-tækin eru ekki beinlínis notendavæn. Menn þurfa að æfa sig rækilega á þeim, áður en þeir fara af stað með þau til að taka punkta. Einnig þurfa menn að gæta þess vel, að hafa aukarafhlöður meðferðis, því að tækin éta rafmagn grimmt. Ef menn eru með þau opin á sjálfvirku “trakki” má búast við, að par af rafhlöðum fari á 8-10 klst. reiðdegi.

Baltasar er líklega sá, sem lengst hefur notað GPS-tæknina við hestaferðir hér á landi. Hann hefur farið á hverju sumri í þriggja vikna hestaferð og tekið nýtt landsvæði fyrir að hverju sinni. Safn hans nær yfir meira en áratug og er sérstaklega mikill fengur að því, en vinna þarf betur ýmsa þætti þess til þess að gera það birtingarhæft á vefnum.

Söfn Þormars og Jónasar ná til nokkurra ára og eru í stórum dráttum nothæf til birtingar í núverandi ástandi. Þar má m.a. sjá vöð á Saltnesál, Haffjarðará, Straumfjarðará og Búðaós á Löngufjörum, svo og ýmsar sjaldfarnar reiðleiðir í Vestur-Skaftafellssýslu og leiðir á Hreppaafréttum.

Mikið atriði fyrir hestamenn er að ná í gagnagrunninn sem fyrst gömlu reiðleiðunum, sem merktar voru inn í upprunalega útgáfu gömlu herforingjaráðskortin, áður en þær voru ritskoðaðar burt í seinni útgáfum kortanna. Með því að ná punktum þessara leiða inn í gagnagrunninn, fá leiðirnar bætta réttarstöðu inn í framtíðina.

Í viðtali, sem birtist á bls. 45 í 7. tölublaði Eiðfaxa árið 2003 segir Sigurður Líndal lagaprófessor frá lagaumhverfi gamalla reiðleiða. Þar kemur fram, að ákvæði Jónbókar frá 1281 um ferðafrelsi reiðmanna hafi verið staðfest í náttúruverndarlögum nr. 44 frá 1999. Þar kemur líka fram, að mikilvægasta heimildin um þjóðleiðir felist í þessum gömlu herforingjaráðskortum gömlu. Hefðarréttur fylgi þessum leiðum, sem merkt eru í góðri trú inn á kortin.

Með samstarfi Landssambands hestamannafélaga, Landmælinganna og Vegagerðarinnar ætti að vera kominn grunnur að kortlagningu gamalla og nýrra reiðleiða hvar sem er á landinu. Með þessu samstarfi hafa hestaferðamenn náð tækifæri til að koma á framfæri sjónarmiðum þeirra, sem kvartað hafa yfir girðingum og skurðum, sem hafa lokað hefðbundnum reiðleiðum.

Í framangreindu viðtali segir Sigurður m.a.: “Meginreglan er að mönnum er almennt heimil för um landið, þar á meðal um eignarlönd, og heimil dvöl á landi í lögmætum tilgangi. Þeir þurfa ekki að fá sérstakt leyfi til að fara um óræktað land. Þeim er ekki bannað að hafa lausa hesta með í för. Á eignarlöndum mega þeir að fengnu leyfi slá upp aðhaldi og næturhólfi, enda valdi hrossin ekki landspjöllum. Óheimilt er að loka gömlum þjóðleiðum með girðingum og skurðum nema hafa á þeim hlið, brýr eða stiga.”

Ennfremur sagði Sigurður: “Hafi leiðum dönsku kortanna ekki verið mótmælt í orði eða verki, má líta svo á, að þær séu verndaðar af hefðarrétti, en skoða verður hvert tilfelli til að ákvarða nánar rétt einstakra manna. Ef einhver vill vefengja reiðleið á dönsku herforingjaráðskorti, sem kortlögð hefur verið í góðri trú, hvílir á honum sönnunarbyrði um, að hún sé ekki hefðbundin þjóðleið, en ekki á hinum, sem vill ríða þessa leið.”

Eiðfaxi 5.tbl. 2004