Grafið undan þjóðarsátt

Greinar

Hin pólitíska yfirstétt í landinu hefur með græðgi sinni og þjónustu við sérhagsmuni grafið undan þeirri sátt og samheldni, sem þarf að ríkja í þjóðfélaginu til að vinnufriður haldist og til að bjartsýni haldist á lífsskilyrði næstu ára. Hún hefur rofið sundur þjóðfélagsvefinn.

Yfirstéttargræðgin birtist í lögum, sem Alþingi hefur sett um, að önnur lög gildi um alþingismenn en annað fólk í landinu. Á þennan hátt ætlar þorri þingmanna að stela mánaðarlega undan skatti upphæð, sem nemur næstum öllum mánaðartekjum hinna lægst launuðu.

Þjónusta yfirstéttarinnar við sérhagsmuni birtist í hærri matarkostnaði heimilanna í kjölfar reglugerða ríkisstjórnarinnar um framkvæmd fjölþjóðlegs samkomulags um lækkun hindrana í vegi milliríkjaviðskipta. Hún gengur þannig þvert á markmið þessa samkomulags.

Ein afleiðing stjórnlausrar þjónustu ríkisstjórnarinnar við hagsmuni ráðamanna landbúnaðarins og illa rekinna vinnslustöðva þeirra er, að hraði verðbólgunnar hefur aukizt úr tæplega 2% í rúmlega 4%, á sama tíma og verðbólga í nágrannalöndunum er rétt rúmlega 2%.

Þetta getur leitt til, að undirritaðar forsendur síðustu kjarasamninga rofni og að stéttarfélögin í landinu öðlist sjálfvirkan rétt til að segja tafarlaust upp samningum. Að öðrum kosti mun reiði almennings fá um síðir útrás í kjarasamningum, sem renna út í lok næsta árs.

Um margra ára skeið hafa tekjur almennings árvisst verið skertar með samningum, sem byggja á þjóðarsátt um, að fólk verði að mæta efnahagskreppu með lakari lífskjörum. Ríkisstjórnir hafa staðið að þessum þjóðarsáttum með samtökum atvinnurekenda og launafólks.

Sú spillta venja hefur myndazt á tímabili þjóðarsátta, að ríkisstjórnir hafa svikizt um sinn þátt. Þannig hefur hluti af efni hverrar þjóðarsáttar verið, að ríkisstjórnir hafa lofað að efna það, sem þær sviku í síðustu þjóðarsátt. Þetta hefur sauðþæg þjóð látið bjóða sér.

En svo má brýna deigt járn, að bíti. Siðleysi stjórnvalda hefur loksins gengið fram af mörgum í sumar. Hækkun matarreikningsins dugði þó ekki ein, heldur urðu skattsvik yfirstéttarinnar að bætast við. Fólk þoldi þjónustuna við sérhagsmuni, en ekki sjálfa græðgina.

Raunar getur þjóðin sjálfri sér um kennt, því að henni virðist ekki vera sjálfrátt, þegar hún gengur til kosninga og velur sér pólitíska yfirstétt, sem vitað er, að gætir ekki hagsmuna almennings í landinu heldur sinna eigin hagsmuna og hagsmuna ofverndaðra gæludýra sinna.

Þegar almenningur áttar sig á fáránlegri þjónslund sinni og rekur spillta yfirstétt af höndum sér, verður blómaskeið á Íslandi. Efnahagslegar forsendur eru fyrir sömu lífskjörum og eru í nágrannalöndunum, ef hætt verður sukki og brennslu verðmæta í þágu gæludýra.

Því miður hefur almenningur ekki hugsað sem neytendur, sem skattgreiðendur og sem launafólk, heldur sem ómyndugir þegnar yfirstéttarinnar. Sumir hafa reyndar vonazt eftir molum af borði spillingarinnar og reynt að velja sér líklega skaffara til þingmennsku.

Ef gegnsæ skattsvik hinnar pólitísku yfirstéttar leiða til, að ljós rennur upp fyrir þjóðinni, er bjart framundan, en annars ekki. Það eina, sem stendur í vegi fyrir gæðalífi á Íslandi á næstu árum og áratugum, er, að þjóðin hefur hingað til neitað að axla ábyrgð kjósenda.

Vonandi hafa græðgi og sérhagsmunaþjónusta yfirstéttarinnar loksins gengið svo fram af fólki, að það vakni til meðvitundar um fáránleikann í núverandi ástandi.

Jónas Kristjánsson

DV