Grátið í ánni miðri

Greinar

Á sama tíma fyrir einu kjörtímabili stóð Sjálfstæðisflokkurinn andspænis ótíðindum úr skoðanakönnunum, sem voru enn geigvænlegri en þau, sem nú berast. Flokkurinn brást snöfurmannlega við, skipti um hest í miðri á og setti ungan mann í borgarstjórasætið.

Árni Sigfússon stóð sig vel. Hann saxaði verulega á bilið milli listanna tveggja, þótt honum tækist ekki að brúa það alveg. Borgarstjóraefni andstæðinganna var einfaldlega of sterkt og hefur styrkzt enn frekar við að hafa verið borgarstýra Reykjavíkur í eitt kjörtímabil.

Nú stendur Sjálfstæðisflokkurinn enn frammi fyrir ótíðindum. Allar kannanir allra könnuða sýna marktækan mun á framboðslistunum tveimur. Ekki er sýnt, að unnt sé að beita sama ráði og fyrir fjórum árum. Það hefur einfaldlega ekki fundizt betri frambjóðandi.

En viðbrögðin eru deigari en fyrir fjórum árum. Kosningastjórn og borgarstjóraefni Sjálfstæðisflokksins láta eins og búið sé að tapa kosningunum. Menn gefast upp og gráta í miðri á, svo sem sést af lesendabréfum í Morgunblaði og dreifibréfum Árna og fleiri í rafpósti.

Hinir deigu leita að sökudólgi fyrir tapi, sem enn hefur ekki átt sér stað. Að árþúsunda hefð hafa þeir fundið hann. Þeir kenna sögumanni um ótíðindin. Þeir segja, að með fölsuðum skoðanakönnunum sé búið að framleiða tap flokksins í væntanlegum kosningum.

Líklegra er, að hagstæðar kannanir allra könnuða hafi sljóvgandi áhrif á fylgismenn Reykjavíkurlistans og dragi úr, að þeir telji brýna þörf á að mæta á kjörstað. Frá sjónarhóli reynslunnar ættu hagstæðar könnunartölur einmitt að vera þeim lista áhyggjuefni.

En kosningastjórn og borgarstjóraefni Sjálfstæðisflokksins láta mótlætið ekki efla sig til dáða, heldur kyrja grátinn um, að menn séu vondir við sig. Slíkt er engan veginn gott vegarnesti inn í straumþunga baráttunnar, sem fer að magnast fyrir alvöru upp úr páskum.

Ekki er tímabært að finna sökudólg fyrir tapi fyrr en það er orðið raunverulegt. Þá getur Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík vegið atriði á borð við hlut Halldórs Blöndals samgönguráðherra, sem hefur reynt að tefja samgöngubætur á höfuðborgarsvæðinu.

Ennfremur getur Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík vegið atriði á borð við óbeit forstjóra kolkrabbans á borgarstjóraefni flokksins fyrir framtak þess í þágu almennings með því að brjótast undan fyrri fáokun þeirra og tilheyrandi okri á bílatryggingum í landinu.

Enginn vafi er á, að sjálft flokkseigendafélag Sjálfstæðisflokksins mun gráta þurrum tárum, ef vegur Árna Sigfússonar verður ekki langur í stjórnmálum. Það verða því ærin verkefni að gera upp allar sakir, sem munu finnast heima fyrir í flokknum sjálfum.

Á meðan Árni grætur og kennir sögumanni um ótíðindin, fer Ingibjörg Sólrún Gísladóttir mikinn og stundar raunverulega kosningabaráttu. Hún sýnir kænsku, hafnar fallkandidötum stuðningsflokka og setur frambjóðanda Grafarvogs við hlið sér á listanum.

Með sama áframhaldi þarf ekki að spyrja að ferðarlokum. Þeir, sem ótrauðir feta vaðið, munu komast alla leið. En þeir, sem eru þegar byrjaðir að dreifa sök á ósigri, sem þeir telja í aðsigi, munu sitja eftir í ánni og ekki komast upp á bakkann hinum megin.

Æðruleysi og kjarkur virðast af skornum skammti hjá Sjálfstæðisflokknum í Reykjavík um þessar mundir. Skelfingu lostið borgarstjóraefni selur ekki.

Jónas Kristjánsson

DV