Grátkarlar um land allt

Greinar

Komið hefur í ljós, að fleiri en Vestfirðingar telja sig hafa orðið að sæta svo mikilli minnkun þorskkvóta, að til vandræða horfi í kjördæminu. Hagsmunagæzlumenn einstakra kjördæma hafa fetað í fótspor starfsbræðra sinna á Vestfjörðum. Matthías er ekki einn í heiminum.

Fyrstir á vettvang urðu þingmenn Austfjarða og Norðurlands eystra. Hagsmunagæzlumenn frá Suðurnesjum og Vesturlandi fylgdu í kjölfarið. Er nú bara beðið eftir, að kröfugerð frá Reykjavík verði nýjasti liðurinn í atvinnuátaki kosningaundirbúnings borgarstjórans.

Allir þessir aðilar segja, að líta verði á þorskkvótaleysið frá almennum sjónarhóli, en ekki grípa til sértækra aðgerða fyrir aðeins einn landshluta. Það er auðvitað nokkuð til í þessu, ef byggt er á þeirri forsendu Vestfirðinga, að minnkaður þorskkvóti sé stóra vandamálið.

Að vísu hafa Vestfirðir þá sérstöðu, að þar er lítið sem ekkert uppland og lítið um tækifæri utan sjávarútvegs. Þar hafa menn sérhæft sig í sjávarútvegi og aftur sjávarútvegi. Það gildir um Vestfirðinga í meira mæli en aðra landsmenn, að þeir hafa ekki að annarri iðju að hverfa.

Fróðlegt hefur verið að fylgjast með, hvernig hagsmunagæzlumenn Vestfjarða hafa til skamms tíma átt erfitt með að sjá sérstöðuna. Þeir hafa til dæmis verið manna frekastir í kröfum um fyrirgreiðslur til landbúnaðar, þótt þær séu kostaðar af peningum úr sjávarútvegi.

Þeir, sem stjórna úthlutun á peningum skattgreiðenda, segjast setja ýmis skilyrði fyrir hinum fyrirhuguðu greiðslum, sem kalla má fyrirhugaðar verðlaunaveitingar fyrir óvarlega meðferð á þorskkvóta. Snúast skilyrðin mest um samruna fyrirtækja og samruna sveitarfélaga.

Þegar skilyrðin verða sett, ættu úthlutunarstjórar að líta á yfirlýsingar frá Vestfjörðum um, að útgerðaraðilar hyggist eða séu byrjaðir að veiða umfram þorskkvóta á forsendum eins konar neyðarréttar, sem sé í stöðunni æðri landslögum, er séu andsnúin Vestfirðingum.

Nógu slæmt er að standa að verðlaunaveitingum fyrir óvarlega meðferð þorskkvóta, svo að ekki sé því bætt ofan á að verðlauna útgerðaraðila fyrir að brjóta lög og fara vísvitandi fram úr þorskveiðikvóta. Slíkt fordæmi getur orðið stjórnkerfinu nokkuð þungt í skauti.

Upphlaupið á Vestfjörðum er raunar hluti af víðtækri og raunar óskipulagðri árás á kvótakerfið, sem greinilega er að verða satt lífdaganna. Stóra spurningin er, hvað taki við af þessu kerfi, þegar búið er að slátra því. Verður það færeyskt stjórnleysi eða auðlindaskattur?

Þegar Vestfirðingar tala um rétt manna til að stunda sjá á sama hátt og forfeðurnir gerðu, eru þeir óviljandi að biðja um sams konar öngþveiti í ofveiði og það, sem hefur framkallað hrun fiskistofna við Færeyjar og hrun sjálfstæðs þjóðfélags á eyjunum í kjölfarið.

Upphlaupið á Vestfjörðum staðfestir um leið enn einu sinni, að afkastageta veiðiflota og fiskvinnslustöðva er hér á landi langtum meiri en efni standa til. Dæmið gengur aldrei upp fyrr en skipum hefur verið stórfækkað og fiskvinnslustöðvum hefur verið stórfækkað.

Auðlindaskattur, öðru nafni veiðileyfagjald, hefur þann kost umfram kvótakerfi að halda ekki aðeins veiðinni í hófi, heldur lágmarka einnig kostnað þjóðfélagsins af fyrirhöfninni við að ná aflanum. Sú skömmtunaraðferð hefur reynzt bezt, þegar auðlindin er takmörkuð.

Upphlaupið á Vestfjörðum er lærdómsríkt. Miklu máli skiptir, að menn dragi af því réttar ályktanir, svo að niðurstöður aðgerðanna verði öllum til góðs.

Jónas Kristjánsson

DV