Mjög hefur sannleiksnefndin reynt á þolinmæði þjóðarinnar og hyggst gera svo enn. Inn á milli heldur hún blaðamannafundi, þar sem hún grætur og stundar áfallahjálp fyrir sjálfa sig. Þetta sérkennilega ástand er komið út í öfgar. Því miður hafa forsetar Alþingis ekki tekið í taumana sem vinnuveitendur. Nú er komin þriðja seinkun birtingar. Um leið eru síðustu forvöð að stöðva skrið nefndarinnar út í kviksyndið. Enn er þó eftir fjórða seinkunin, þegar grátandi nefndarmenn telja brýnt að skoða vel andmæli viðmælendanna. Ég hef margoft sagt, að birta eigi skýrsluna strax og athugasemdirnar við tækifæri.