Áreiðanlega er hollt að sníða fæði að steinaldarmönnum. Þeir höfðu milljón ár til að þróa meltinguna. Akuryrkjufæði hefur aðeins haft tíuþúsund ár til þess og verksmiðjufæði nútímans bara hundrað. Kenningar matarkúra um steinaldarfæði eru samt rangar. Fólk át eftir aðstæðum, kjöt norðan heimskautsbaugs, grænmeti sunnan hvarfbaugs. Fornleifagröftur sýnir, að steinaldarmenn þekktu ekki annað brauð en steinasteikt flatbrauð úr villikorni. Átu kjöt soðið, en ekki grillað. Þekktu ekki ávexti og grænmeti nútímans, heldur fornar útgáfur, sem nútímafólk mundi telja óætar. Fólk lifði mest á grautum úr villikorni blönduðu fiski, skordýrum og villigrænmeti.