Greiði úr óvæntri átt

Greinar

Sviptingarnar í Austur-Evrópu hafa óbeint fremur heppileg áhrif á viðskiptastöðu Íslands gagnvart Vestur-Evrópu. Færsla austantjaldsríkjanna í átt frá alræði og ríkisbúskap til fjölræðis og markaðsbúskapar hefur breytt áherzlum í efnahagssamstarfi Vestur-Evrópu.

Fyrir örfáum vikum var sveiflan í Evrópubandalaginu eindregið í átt til aukinnar innri samvinnu á kostnað aukinnar samvinnu út á við. Ártalið 1992 hafði fengið eins konar dularmagn sem áningarstaður á leið til Bandaríkja Evrópu, hugsjónar, sem lengi hefur blundað.

Stefnt var að sameiginlegri mynt, sameiginlegu félagskerfi og margvíslegum öðrum aðgerðum til að steypa samstarf ríkja Evrópubandalagsins í eitt mót. Talið var, að mikil áherzla á viðræður út á við gæti tafið hina erfiðu minnkun sjálfsákvarðana ríkjanna.

Nú standa ríki Evrópubandalagsins hins vegar andspænis gerbreyttum viðhorfum. Þau verða að bregðast við byltingunum í Austur-Evrópu. Um leið verða þau að draga úr fyrirhuguðum hraða á ferð sinni í átt til efnahags- og viðskiptavirkis tólf ríkja í Vestur-Evrópu.

Af siðferðilegum ástæðum og hagsmunaástæðum í senn þurfa stjórnendur Evrópubandalagsins og einstakra ríkja þess að ræða við hina nýju stjórnendur í Austur-Evrópu og svara kröfum þeirra um peningaaðstoð og um aðgang að markaði í Vestur-Evrópu.

Þetta hefur skyndilega hleypt fítonsanda í viðræður Evrópubandalagsins og Fríverzlunarsamtakanna um evrópskt efnahagssvæði og í undirbúning Fríverzlunarsamtakanna fyrir þessar viðræður. Nú er stefnt að niðurstöðu í samkomulagi strax í lok næsta árs.

Ríki Fríverzlunarsamtakanna hafa samþykkt að beita sér fyrir, að fyrirhuguð fríverzlun milli landa Evrópu bandalagsins og landa Fríverzlunarsamtakanna nái til sjávarafurða. Þessi niðurstaða, sem var formlega undirrituð í vor, er okkur mjög dýrmætt fagnaðarefni.

Okkar menn í þessum viðræðum þurfa nú að gæta þess vel, að kaflinn um viðskiptafrelsi sjávarafurða verði ekki skilinn eftir einhvers staðar á leiðinni vegna áhugaleysis hinna aðila Fríverzlunarsamtakanna og óbeinnar andstöðu aðila Evrópubandalagsins.

Jafnframt ber okkur að nota hvert tækifæri til að koma þessu sjónarmiði á framfæri við ráðamenn í ríkjum Evrópubandalagsins, svo sem hefur verið gert, bæði á vettvangi sjávarútvegsráðherra og utanríkisráðherra. Dropinn holar steininn á þessu sviði sem öðrum.

Sjálfsagt er að bæta um betur og fara fram á tvíhliða viðræður um viðskiptafrelsi sjávarafurða við Evrópubandalagið sem slíkt og einstök ríki þess. Jafnvel þótt hinum aðilanum lítist ekki á slíkt, vekur ósk okkar athygli á sjónarmiðum okkur og auglýsir þau óbeint.

Ástæðulaust er að búa innanlands til pex um, hvort betra sé að vinna á vegum Fríverzlunarsamtakanna eða í beinum viðræðum. Aðalatriðið er, að okkar menn þurfa á næsta ári að sækja fram með íslenzk sjónarmið á hverjum þeim vettvangi, sem sjáanlegur er.

Í uppsiglingu er stórkostlegur markaður átján ríkja Vestur-Evrópu auk sambands þessa markaðar við að minnsta kosti fjögur ríki Austur-Evrópu. Við eigum að stefna af hörku að þátttöku í þessum markaði, sem hentar okkur mun betur en aðild að Evrópubandalaginu.

En það er til marks um, hversu háð við erum útlöndum, að atburðir í Austur-Evrópu skuli skyndilega hafa bætt stöðu okkar á erfiðum markaði í Vestur-Evrópu.

Jónas Kristjánsson

DV