Greiðslufall

Greinar

Heilbrigðisráðherra telur sér heimilt greiðslufall kosningaloforða. Gildir þá einu, hvort loforðin eru munnleg eða skrifleg. Svikin við öryrkja eru stærsta, en ekki eina dæmið um, að ráðherrann telur lofsvert að efna slík loforð að hluta á umsömdum tíma og lýsa yfir vilja sínum til að ljúka dæminu síðar.

Ekki er nýtt, að ráðherrar telji sér heimilt að svíkja tímasetningar í gefnum loforðum. Frægasta dæmið um slíkt var í einni þjóðarsáttinni milli aðila vinnumarkaðarins, þegar ríkisstjórnin lofaði skriflega að efna það, sem hún hafði lofað skriflega í fyrri þjóðarsátt þessara sömu aðila.

Svikin við öryrkja eru afsökuð með, að samkomulagið við þá í fyrravor hafi byggzt á skökkum útreikningum á kostnaði. Í ljós hafi komið við gerð fjárlaga í haust, að dæmið sé 500 milljón krónum dýrara en ráðuneytið hafði ætlað. Þessi mismunur er ekki á fjárlögum næsta árs og felur í sér svikna tímasetningu, greiðslufall.

Stundum er ekki staðið við gerða samninga, þótt útreikningar séu réttir. Í vor reiknaði ráðuneytið útistandandi upphæðir í tengslum við þjónustusamning ríkisins um Heilsustofnun í Hveragerði. Ráðuneytið gerði skriflegt samkomulag um, hvernig þær skyldu greiddar. Aðeins var staðið við hluta af því og borið við fjárskorti.

Ráðherrann sagðist mundu halda áfram að reyna að efna samkomulagið eins og hann segist nú muni halda áfram að reyna að efna samkomulagið við öryrkja. Hann er þekktur geðprýðismaður, en tekur þó óstinnt upp, að greiðslufall við framkvæmd munnlegra og skriflega loforða sé sagt vera svik. Og ekki býðst hann til að greiða dráttarvexti.

Engir fyrirvarar um getuleysi ráðuneytisins eru í slíkum samningum við aðila úti í bæ. Ekki er fyrirvari um ranga útreikninga ráðuneytisins, um erfiðan fjárhag ríkisins eða um andstöðu í öðrum og æðri ráðuneytum. Enda hefðu viðsemjendur sennilega ekki skrifað undir, ef ráðuneytið hefði haft slíka fyrirvara á sínum undirskriftum.

Þegar heilbrigðisráðherra vísar á bug, að vanefndir séu á samkomulaginu við öryrkja, er hann að segja, að handsal eða undirskrift hans feli aðeins í sér loforð um að vinna að málinu, en ekki að framkvæma það á tilsettum tíma. Við getum ímyndað okkur hrunið í viðskiptalífinu, ef slíkir siðir yrðu teknir þar upp.

Ef ráðherrar taka upp á þeim óskunda að telja greiðslufall ekki vera svik við gerða samninga, skaða þeir ekki bara virðingu ríkisvaldsins sem samningsaðila, heldur magna þeir siðleysi í þjóðfélaginu. Margir munu vilja apa eftir siðskökkum höfðingjum.

Jónas Kristjánsson

DV