Greifinn dáleiddi partíið

Punktar

Fyrst man ég eftir Davíð Oddssyni sem borgarstjóra í boði hjá Steingrími Hermannssyni í Ráðherrabústaðnum, líklega 1983. Tilefni hanastélsins er löngu gleymt, en myndin lifir enn. Menn voru tveir og þrír saman á stangli í stofunni, fimm umhverfis Steingrím og tólf kringum Davíð. Hann stóð sperrtur og sagði skemmtisögur, hverja á fætur annarri. Menn mændu á sögumann, hlógu óskaplega. Hann átti partíið eins og hann átti síðar landið allt. Þarna kom hann fram sem fullgerður dáleiðandi, skyggði meira að segja á gestgjafann. Þá þegar fór ég að efast um, að Davíð væri heppilegur greifi fyrir þjóðina. (Úr bókinni: Jónas Kristjánsson: Frjáls og Óháður, 2009)