Ef Reykjavíkurborg heimskast til að afhenda Iðnaðarbankanum hina umdeildu lóð á horni Miklubrautar, Háaleitisbrautar og Safamýrar, er líklegt, að borgin þurfi síðar að kaupa bankahúsið til niðurrifs, ekki í þágu nágrannanna, heldur vegna umferðarslaufu.
Umferðarkerfið í Reykjavík er að hrynja. Misræmi flutningaþarfar og flutningagetu hefur í sumar orðið meira en það hefur verið í að minnsta kosti nokkra áratugi. Umferðarþunginn hefur reynzt vanáætlaður í meira lagi og á enn eftir að magnast verulega.
Reykjavíkurborg á erfitt með að létta hluta umferðarþungans af Miklubraut. Kleppsvegurinn er of afskekktur í borgarstæðinu. Svigrúmið við Bústaðaveginn er of þröngt, einmitt vegna þröngsýninnar, sem hefur lengi einkennt og einkennir enn borgarskipulag Reykjavíkur.
Tálsýnin um Fossvogsbraut er svo kapítuli út af fyrir sig. Þar skipulagði Reykjavík hraðbraut á útivistarsvæði Kópavogs. Borgaryfirvöld ímynda sér enn, að þau komist upp með þá óvenjulegu frekju, enda er borgarstjóri vanur að komast upp með ýmsan yfirgang.
“Þessari ákvörðun verður ekkert breytt”, getur borgarstjóri sagt við íbúa Safamýrar, sem hafa valið hann til embættis. En hann getur ekki sagt þetta við íbúa Kópavogs, sem hafa ekkert með borgarstjórann að gera og láta hann auðvitað ekki komast upp með moðreyk.
Niðurstaðan verður, að Miklabraut þarf að taka við meginhlutanum af austur-vestur umferðinni í borginni. Nú þegar er ástandinu bezt lýst sem hreinu öngþveiti, sem nær austur alla brautina, síðan áfram Vesturlandsveg og loks Suðurlandsveg upp undir Rauðavatn.
Tímabært er orðið fyrir borgarstjóra og hirðmenn hans að átta sig á, að líklegt er orðið, að öll gatnamót Miklubrautarássins þurfi um síðir að verða á brúm, allt vestan frá Umferðarmiðstöð austur í Smálönd. Líkurnar nægja til að kalla á, að land sé tekið frá.
Víða sjáum við slys, sem felast í, að leyft hefur verið að byggja á lóðum, sem síðan kom í ljós, að þurfti að nota til annars. Þrengslin við Bústaðaveg eru bara eitt dæmið um þetta. Komið hefur í ljós, að eitt alvarlegasta dæmið er nýi miðbærinn við Kringlumýrarbraut.
Opnun Kringlunnar hefur sýnt, að byggt hefur verið allt of þröngt á þessu svæði. Götur og bílastæði samsvara ekki þörfinni. Þetta er afar sérkennilegt, því að allt er þetta nýbyggt svæði og ætti að vera skipulagt í samræmi við þekkingu og reynslu líðandi stundar.
Við nýja miðbæinn hefur Reykjavíkurborg orðið að breyta of þröngu skipulagi, nýlegu, og setja flóknar slaufur og brú við erfiðar aðstæður í kringum benzínstöðvar Miklubrautar. Betra hefði verið að sýna framsýni á sínum tíma og taka frá land í þessu skyni.
Stóraukin verzlun í nýja miðbænum er einn mikilvægasti þáttur hins aukna álags á Miklubraut. Það mátti auðvitað sjá fyrir. Þetta gæti borgarstjóri nú séð eftir dúk og disk og sparað sér digurbarkalegar yfirlýsingar um bankabyggingu í slaufurými götunnar.
Hinn sérstæði stjórnunarstíll Reykjavíkur, þar sem kokhraustur borgarstjóri situr með jámenn eina í kringum sig, eilífðar-embættismenn á aðra hönd og beinleysis-borgarfulltrúa á hina, dregur úr möguleikum á, að unnt sé að sjá að sér og leiðrétta ranga kúrsa.
Þetta eru kjörnar aðstæður til að detta beint ofan af háaleiti hrokans niður í greindarlægð aukinna þrengsla við mikilvægustu umferðaræð borgarinnar.
Jónas Kristjánsson
DV