Grillið

Veitingar

Grillið á Hótel Sögu verður ekki sakað um ævintýramennsku í matargerðarlist. Þar er öryggið fyrir öllu. Matseðillinn er fastur og stuttur, lítur varla við fiski og býður flóknar uppskriftir á dýrum réttum, sem farið er afar næmum höndum um í eldhúsinu. Þetta er vandaður staður fyrir kröfuharða íhaldsmenn, en höfðar síður til þeirra útlendu hótelgesta, sem hafa áhuga á fiski.

Enginn matseðill dagsins er í boði og á fastaseðlinum eru bara tveir fiskréttir, lax og skötuselur. Lax kemur árið um kring úr eldi og skötuselur árið um kring úr frystikistu, svo að daglegt markaðsframboð á fiski hefur lítil áhrif í þessum merkustu herbúðum flókinnar matargerðarlistar í landinu.

Árgangamerktur vínlisti er annað aðalsmerki staðarins, langur, fjölbreyttur og góður. Verðlag hans er sanngjarnt, þótt flaskan af heimsins dýrasta víni, Chateau Cheval Blanc, fari upp í 45 þúsund krónur. Hitt aðalsmerkið er svipmót staðarins eins og það kemur fram í afar góðri þjónustu, skemmtilegu útsýni og höfðinglegum innréttingum, sem að mestu eru upprunalegar. Eini svipgallinn er, að gangurinn að veitingasalnum er notaður sem stólageymsla.

Andakjöt reyndist vera hátindur matreiðslunnar. Hunangsgljáð andabringa með steyttum, grænum pipar, pönnusteiktum kartöfluþráðakökum, sykurbrúnuðum skalottulauk, fennikku og smásöxuðu grænmeti var prófuð í tvígang og reyndist jafnan frábær. Einnig var hægt að fá andakjöt í forrétt, soðið í eigin safa, borið fram með valhnetum á gufusteiktu jöklasalati.

Afar góðar voru fjórar meyrar úthafsrækjur í sætsúrri sósu chili-kryddaðri, bornar fram á koríander-kryddaðri kúskús-köku. Anísilmað grænmetisseyði var sérkennilegt og gott, með heilum anís og turni af léttelduðu grænmeti í miðju. Enn betri var heitur og sneiddur hörpuskelfiskur á kartöflunæfrum og rjómasoðnum blaðlauk.

Milli rétta var borinn fram milliréttur. Í annað skiptið var það Bourbon viskí-ískrap, sem Jim Beam var hellt yfir. Í hitt skiptið var það afar gott, bragðhreint og magnað tómatseyði.

Tæpastur aðalrétta var full mikið elduð villiþrenna, gæs, svartfugl og hreindýr með gráðostsósu og eplasalati. Afar góðar voru grillaðar lambalundir undir hvítlauks- og gulstöngulskryddaðri brauðskel og kartöfluturni, bornar fram með mildri sveppasósu. Grillaðar nautalundir voru magrar og bragðdaufar, en meyrar, bornar fram með léttsoðnu grænmeti, lítilfjörlegri svartsveppakæfusneið, góðri gæsalifur og enn betri Madeirasósu.

Exótískir ávextir reyndust vera margs konar ber og litlir ávextir í kringum ískrap. Passíuávaxtakaka var lítil hringlaga kaka með súkkulaðiískúlu, smásöxuðum ávöxtum og Grand Marnier líkjör. Hvítur búðingskremtígull með sítrónubragði og sterkri sítrónusósu var skemmtilegasti eftirrétturinn.

Verðlagið á Grillinu er afar hátt, um 4.440 krónur þríréttað á mann, fyrir utan drykkjarföng. Staðurinn er aðeins opinn á kvöldin.

Jónas Kristjánsson

DV