Grillið

Veitingar

Því meira sem hlutirnir breytast, því meira eru þeir eins. Sömu veitingahús tróna nú á tindi íslenzkrar matargerðarlistar og fyrir tveimur áratugum, Holtið og Grillið. Aðrir staðir hafa risið og hnigið og Grillið verið brokkgengt á köflum síðustu árin, en í góðu formi síðustu vikur.

Grillið hefur árum saman verið í sama hefðarhamnum, glæsilegur útsýnissalur milliklassahótels með virðulegri og alúðlegri þjónustu, samfara einum allra dýrasta matseðli landsins. Þríréttað með kaffi kostar 4.600 krónur á mann áður en kemur að borðvíni. Slíkt verðlag gefur ekki kost á neinum mistökum.

Villusvigrúmið er takmarkað enn frekar með því að hafa fáa rétti á boðstólum, alla fasta og aðeins þrjá fiskrétti. Þetta má hafa til marks um, að við erum í hótelsal, en ekki ævintýrasal matargerðarlistar. Matseðillinn rambar raunar á barmi faglegrar fátæktar. Það er ekki spennandi að borða oft í Grillinu.

Með smjöri og þrenns konar brauði var borið fram svokallað papenade, ágætur grautur úr ansjósum, olífum og sólþurrkuðum tómötum. Fiðluleikari kom upp í salinn úr jólahlaðborðinu á jarðhæðinni og spilaði svo vel fyrir gesti, að messufall varð í borðhaldi um sinn. Þetta var fallega hugsað, en út úr stíl.

Forréttir voru undantekningarlaust minnisstæðir. Risahörpufiskur í sítrónukrydduðu hvítasmjöri var meyr og fínn. Næfurþunnar laxa- og lúðuþynnur á japanska vísu með kryddlegnu grænmeti voru vel heppnaðar. Skelflettur humar á spínatbeði með eplabitum í trjónuberjagljáa og jarðsveppaolíu var glæsilegur réttur með humri, sem bráðnaði á tungu.

Andabringukjöt var rautt, meyrt og gott, með ljúflega rjómasoðnu byggi, kumquat sítrusávaxtasósu og andapylsu, skemmtilegt og nútímalegt frávik frá hefðbundinni og hunangsgljáðri andakjötsmatreiðslu staðarins frá fyrri árum, sem hafði náð fullkomnun, en var orðin þreytt.

Gott linsubaunamauk ofan á pönnusteiktum kartöfluþráðum fylgdi rauðri, mildri og mjúkri villibráðarþrennu staðarins, gæs, rjúpu og hreindýri. Þetta var mun betri þrenna en sú, sem ég fékk hér fyrir tveimur árum, en samt ekki bezta villibráð bæjarins.

Sítrónuterta minnti á sítrónubúðing með brenndri sykurskorpu, nánast crème brûlée, bragðsterk, létt í maga og frískandi, borin fram með ískrapi og laufum úr þremur sítrusávöxtum, fyrirtaks endir á góðri og traustri máltíð, sem var hófleg að metnaði og sigldi með löndum. Kaffi var gott, en espresso þunnt.

Jónas Kristjánsson

DV