Grín og martröð.

Greinar

Íslenzkir grínistar, sem kalla sig útgerðarmenn, eiga ekki fyrir flugfarinu, þegar þeir fara utan að kaupa sér togara. Þeir fá sumt 105% lán til kaupanna og þurfa svo að slá fyrir olíu og veiðarfærum í fyrstu veiðiferðina.

Fyrirfram er vitað, að togarinn getur með engu móti náð helmingnum af þeim afla, sem hann þarf til að standa undir sér. Allir vita, að grínistarnir geta hvorki greitt vexti né afborganir. Og flugfarið er auðvitað enn ógreitt.

Þetta er hægt, af því að íslenzku stjórnmálaflokkarnir hafa komið sér saman um að reka risavaxna banka á borð við Fiskveiðasjóð og Byggðasjóð, þar sem engar kröfur um arðbærni eru gerðar, aðeins pólitískar kröfur.

Stjórnmálamennirnir nota slíka sjóði til að þjónusta grínista, sem þykjast bjóða upp á jafnvægi í byggð landsins, en manna síðan togarana í öðrum landshlutum og sigla loks með aflann. Þetta heitir byggðastefna og er heilög kýr.

Í Fiskveiðasjóði og Byggðasjóði kristallast fjármálaspilling íslenzkra stjórnmála. Hún felst í, að núverandi og fyrrverandi stjórnmálamenn sólunda fé almennings í endalausa röð gæluverkefna í útgerð, landbúnaði og iðnaði.

Menn, sem hafa verið kjörnir til að sitja á Alþingi að semja lög og álykta um þjóðmál, en hafa lítið viðskiptavit, verja lunganum úr deginum til að reyna að stjórna atvinnulífinu, til dæmis með hinu risavaxna sjóðakerfi.

Þannig voru reistar Olíumalir og Kröflur. Þannig verða reist Sykurver, Steinullarver og Saltver. Þannig er viðhaldið martröð hins hefðbundna landbúnaðar með tilheyrandi kjöt- og smjörfjöllum. Og þannig er togurunum hlaðið upp.

Ekki er í þágu sjómanna og útvegsmanna, að grínistum eru gefnir togarar. Sérhver nýr tekur afla frá hinum, sem fyrir eru. Afkoma flotans, sem fyrir er, verður lakari við tilkomu nýrra skipa, því að fiskistofnarnir eru takmarkaðir.

Eini arðbæri þáttur togaraaflans er þorskurinn. Af honum veiðist minna í ár en í fyrra. Menn sjá fram á frekari samdrátt á næstu árum. Þorskveiðibann svonefndra skrapdaga er komið upp í 150 daga á ári hjá togaraflotanum.

Við slíkar aðstæður er lífsnauðsyn að minnka flotann, minnka sóknina, minnka olíunotkunina og spara veiðarfærin. Gera þarf upp þá grínista, sem gera út á kostnað almennings, svo að rýmra sé um hina, sem kunna til verka.

Risabönkum á berð við Fiskveiðasjóð og Byggðasjóð ber skylda til að ganga hart eftir, að staðið sé í skilum með fé almennings. Og að hörmungarfyrirtæki séu gerð gjaldþrota, svo að rekstur færist smám saman í hæfari hendur.

Ennfremur væri til bóta að leggja þessa sjóði niður og beina fjármagninu inn í bankakerfið, þar sem tilraunir eru gerðar til að meta arðsemi. Sjóðirnir starfa af fullkomnu ábyrgðarleysi í fjármálum og eiga sér því ekki tilverurétt.

Hitt er svo spurning, hvort ekki varði við lög að sólunda peningum almennings, misfara með opinbert fé. Hvort ekki megi draga fyrir dóm þá menn, sem stjórna fjárveitingum Fiskveiðasjóðs og Byggðasjóðs með vinnubrögðum útgerðar-grínista.

Meðan íslenzkir stjórnmálamenn furða sig á, af hverju þeir njóta ekki álits almennings, eru átta nýir togarar að bætast við flotann. Allir eru þetta pólitískir togarar. Sú martröð er öll á ábyrgð íslenzkra stjórnmálamanna.

Jónas Kristjánsson.

DV