Ráðamenn þjóðarinnar fara á kostum þessa dagana. Pálmi Jónsson landbúnaðarráðherra tilkynnir, að samdrætti landbúnaðar sé lokið. Og stjórn Framkvæmdastofnunar samþykkir mótatkvæðalaust að láta kaupa hinn illræmda Þórshafnartogara.
Löngu er ljóst, að togari þessi er mun dýrari en svo, að eigendur fái undir staðið. Ennfremur er ljóst, að ríkisstjórn og Framkvæmdastofnun voru meira eða minna blekkt til að samþykkja kaupin á öðrum og lægri forsendum.
Að útgerð skipsins standa gamalreyndir grínistar, sem virðast staðráðnir í að sannreyna, hve langt sé hægt að draga stjórnvöld á asnaeyrunum með sjálfvirkri brennslu peninga út á óútfylltar en undirritaðar ávísanir.
Einn þriggja ávísanaútgefenda, Sverrir Hermannsson kommissar, sá loksins, að hann hafði verið blekktur, og neitaði að borga meira. Árangurinn er sá, samkvæmt hans orðfæri, að leyst hefur verið niður um hann.
Þar voru að verki hinir tveir útgefendur óútfylltu ávísananna, þeir Stefán Valgeirsson, þingmaður grínistanna, og Steingrímur Hermannsson sjávarútvegsráðherra. Þeir gáfu bara út nýja ávísun á ríkið, það er að segja þig og mig.
Með þessa nýju ávísun í höndunum gat stjórn stofnunarinnar bælt niður uppreisn skynseminnar. Spillinguna undirrituðu að lokum þingmennirnir Stefán Guðmundsson, Þórarinn Sigurjónsson, Geir Gunnarsson, Matthías Bjarnason og Ólafur G. Einarsson.
En milljarðarnir fjúka víðar en á Þórshöfn. Þeir fjúka í Bændahöllinni, þar sem saman er komið Búnaðarþing til eins mánaðar uppihalds á kostnað skattgreiðenda. Þar er verið að undirbúa nýjar fjárheimtur á hendur þér og mér.
Þar tilkynnti Pálmi Jónsson þau gleðitíðindi, að nauðsynlegu samdráttarskeiði landbúnaðarframleiðslunnar væri lokið. Nú yrði að snúa við blaðinu og halda í horfinu. Kannski til þess, að ekki safnist of mikið fé í ríkissjóði.
Landbúnaðarráðherrann sagði blákalt, að mjólkurframleiðslan væri komin í jafnvægi og að hætta væri á mjólkurskorti. Samt er vitað, að mjólkurframleiðslan er tvöfalt meiri en sem nemur neyzlu nýmjólkur í landinu.
Hinn helmingur mjólkurinnar er að verulegu leyti notaður til að búa til smjör, sem er tíu sinnum dýrara en innflutt smjör, og osta, sem eru fimm sinnum dýrari en innfluttir og margir hverjir þar að auki ekki forsvaranlega framleiddir.
Staðreyndin er nefnilega sú, að mjólkurframleiðslan þyrfti enn að minnka um nálægt helming til að komast í það jafnvægi, sem Pálmi talar um. Er þó mjólkurneyzlu haldið óeðlilega mikilli með gífurlegum niðurgreiðslum.
Landbúnaðarbölið hefur svo gersamlega sligað fjárlög ríkisins, að peningabrennslan fer fram að nokkru leyti utan þeirra. Í fyrra laumaði ríkisstjórnin inn á lánsfjáráætlun 1,7 gömlum milljörðum umfram útflutningsbætur fjárlaga.
Þar á ofan hrósaði ráðherrann sér af að hafa þegar fyrir síðustu áramót brennt fyrirfram 2,5 gömlum milljörðum af 12 milljarða útflutningsbótum ársins. Þetta geta grínistar svo sannarlega kallað að hafa komið hlutunum í jafnvægi.
Ekki er minnsta von, að unnt sé að reka íslenzkt þjóðfélag af skynsemi og hóflega lítilli verðbólgu, þegar aðrir eins grínistar og milljarðabrennslumenn eru við völd og þeir, sem getið hefur verið í leiðara þessum.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið