Frá gatnamótum fjallvegar vestan Kerlingarfjalla og afleggjara að Fosslækjarskála um Fosslækjarver til Svínárness.
Síðan Jökulkvísl var brúuð við Kerlingarfjöll fara hestamenn þessa leið upp á Kjalveg í stað þess að fara kvíslina á vaði við Hvítárbrú norðan Bláfells. Sagan segir, að búið hafi verið að fornu í Fosslæk, en engar minjar hafa fundizt um slíkt.
Byrjum á fjallveginum vestan Kerlingarfjalla í 520 metra hæð, þar sem afleggjarinn liggur suðvestur að Fosslækjarskála í 470 metra hæð. Frá gatnamótunum liggur leið milli Ásgarðs í Kerlingarfjöllum og fjallaskálans í Leppistungum á Hrunamannaafrétti. Við förum þverleiðina suðvestur í Fosslæk. Síðan förum við niður með Fosslæk að vestanverðu og svo með Grjótá að austanverðu niður í Hrafntóftaver. Þaðan förum við suður um Lausamannsölduver, nálgumst Sandá, þar sem við komum að fjallaskálanum í Svínárnesi í 390 metra hæð.
18,6 km
Árnessýsla
Skálar:
Fosslækur: N64 34.524 W19 36.144.
Svínárnes: N64 28.223 W19 44.547.
Nálægir ferlar: Hrunamannaafréttur, Miklumýrar.
Nálægar leiðir: Svínárnes, Harðivöllur, Kjalvegur, Sandá, Grjótártunga, Svínárbotnar, Skyggnisalda, Sigvaldakrókur.
Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort