Fyrsta bréfið til stjórnarskrárnefndarinnar er frá íslenzkri málnefnd, sem vill festa í stjórnarskránni, að íslenzka sé ríkismál. Þetta sýnir áþreifanlega, að tungumálið er komið í vörn. Fyrir svo sem aldarfjórðungi hefði engum dottið í hug að vernda móðurmálið á þennan hátt. En nú eru heil málþing og aðalfundir haldnir, fræðigreinar og vísindarit skrifuð á erlendu máli. Margir sjá fyrir, að smám saman muni íslenzka verða útdauð, öðru vísi en sem nöfn á íslenzkum hrossum í útlöndum. Málnefndin vill núna leggja stein í götu þeirra, sem síðar munu koma til skjalanna og vilja taka upp ensku.