Grýta fé í gæludýr

Greinar

Alþingi taldi sig nýlega þurfa að bjarga einni af fimm graskögglaverksmiðjum ríkisins frá gjaldþroti. Með 32 atkvæðum gegn 13 samþykkti það að auka hlutafé ríkisins í Vallhólmaverksmiðjunni í Skagafirði með skilyrði um hlutfallslega hlutafjáraukningu heimamanna.

Reiknað er með, að ríkið leggi fram 11­15 milljón krónur gegn 4­5 milljóna framlagi heimamanna í Skagafirði og Húnaþingi. Þar með eykst hlutaféð úr 10 milljónum í 25­30 milljónir. Þetta fé á að nota til að greiða 23 milljón króna gjaldfallnar skuldir verksmiðjunnar.

Í heild skuldar þessi nýlega verksmiðja 97 milljónir. Á móti koma birgðir, sem nema hálfri annarri ársframleiðslu. Þessar birgðir eru metnar á 40 milljónir. Það mat byggist á, að unnt sé að selja þær á verði, sem er svo hátt, að kaupendur finnast ekki nægilega margir.

Þessi verksmiðja var tekin í notkun árið 1983, þótt fyrir væru fimm slíkar, sem höfðu meiri afköst en sem nam markaðinum í landinu. Hið sama ár var lokið skýrslu svokallaðra sérfræðinga, sem töldu þurfa að reisa sjöundu verksmiðjuna á Húsavík!

Graskögglaverksmiðjurnar hafa löngum verið hugsjónamál Búnaðarþinga. Á þeim þingum hittast forkólfar landbúnaðarins á kostnað ríkisins og samþykkja , að ríkið borgi hitt og þetta. Þingmenn hlaupa svo á eftir þessum ályktunum í von um fylgi.

Lítið er spurt um, hvers vegna ríkið sem slíkt eigi að láta reisa svona verksmiðjur frekar en einhverjar aðrar og vera helzti eða eini hluthafinn í þeim. Það er bara talið sjálfsagt að ríkið borgi brúsann, ef hinar heilögu kindur eða kýr landbúnaðarins eiga í hlut.

Gagnvart gæludýrum á borð við graskögglaverksmiðjur er fyrst hlaupið undir bagga með lánum. Í fyrra útveguðu stjórnmálamennirnir 12 milljóna lán til að forða Vallhólmaverksmiðjunni frá gjaldþroti. Það hefur ekki dugað, svo sem samþykkt Alþingis sýnir.

Brátt verður allt litróf hinnar pólitísku fyrirgreiðslu komið í notkun til bjargar graskögglaverksmiðjum. Veitt verða vildarlán, gefnir eftir vextir, lagt fram hlutafé, strikuð út vandamál. Allt verður gert nema viðurkenna í verki, að offramleiðsla er á graskögglum.

Í byrjun þessa vetrar áttu verksmiðjunnar 17 þúsund tonn af kögglum eftir 12 þúsund tonna ársframleiðslu. Birgðirnar námu því framleiðslu hálfs annars árs. Þar á ofan var afkastageta verksmiðjanna vannýtt í sumar um þriðjung eða um heil 6 þúsund tonn.

Þessi vandræði hófust með lögum um graskögglaverksmiðjur, sem Alþingi samþykkti 1973. Þá var efnt til samkeppni af hálfu ríkisins við eina verksmiðju í einkaeign á Kjalarnesi. Þá var stofnað til þess ástands, sem nú ríkir, ­ að allir tapa stórfé og þjóðin mest.

Við mat á frammistöðu stjórnmálamanna á þessu sviði má ekki gleyma, að gæluverksmiðjur þessar eru reknar í skjóli 130% gjalds á innflutt kjarnfóður. Þær eru því enn eitt dæmið um, hvernig okkur er neitað um að njóta hins lága framleiðsluverðs á heimsmarkaði.

Ef ríkið á mikla peninga aflögu, er hagkvæmara að leggja þá í listir og menningu, því að slíkt eykur ekki þar á ofan kostnað Íslendinga af að lifa í landinu.

En það er dæmigert, að Alþingi skrúfar fyrir framlög til lista og menningar um leið og það grýtir peningum í gæludýr á borð við graskögglaverksmiðjur, sem beinlínis spilla lífskjörum okkar.

Jónas Kristjánsson

DV