Guð fannst í Skotlandi

Greinar

Guð nútímans er fundinn í Skotlandi. Hann heitir Ian Wilmut og hefur búið til sauðkind með einræktun erfðaefnis úr annarri kind. Hann starfar við örlitla rannsóknastofu, sem hefur að markmiði að framleiða lyf úr vefjum kinda og rækta afurðameira og hraustara sauðfé.

Frá einræktun sauðfjár er stutt skref í einræktun annarra dýra og litlu lengra skref í einræktun manna. Iam Wilmut hefur sjálfur staðfest, að fræðilega sé ekkert því til fyrirstöðu, að fólk verði ræktað á þennan hátt, en bætti því við, að slíkt væri óviðkunnanlegt.

Með einræktun má taka afrit af fullorðnu fólki og láta það endurfæðast í sífellu, öld eftir öld. Einræktuðu einstaklingarnir verða ekki nákvæmlega eins og fyrirmyndirnar, því að uppvöxturinn hefur líka áhrif. Í gamla daga var sagt, að fjórðungi bregði til fósturs.

Þegar einræktun komst í hámæli siðfræðinga snemma á sjöunda áratugunum, sögðu erfðavísindamenn, að umræðan væri óþörf, því að einræktun væri óframkvæmanleg. Nú reyna þeir líka að draga úr viðbrögðunum og segja vísindamenn hafna einræktun manna.

Hagsmunir landbúnaðar og lyfjaiðnaðar munu ráða því, að einræktun dýra mun fleygja fram á næstu árum. Sum ríki hafa fyrir sitt leyti bannað, að skrefið verði stigið áfram til einræktunar manna. En alltaf verða til ríki, sem ekki munu framfylgja slíku banni.

Rannsóknastofur í einræktun eru tiltölulega einfaldar og ódýrar. Einræktun kostar ekki nema brot af þeim umsvifum og fyrirhöfn, sem þarf til að búa til kjarnorkusprengjur. Einræktun má til dæmis stunda í bananalýðveldum undir verndarvæng geðbilaðra herforingja.

Sömuleiðis má ljóst vera, að þekkingarþráin ein út af fyrir sig mun kalla á tilraunir fræðimanna á þessu sviði sem öðrum. Marklaust er “að treysta því”, að fólk verði ekki einræktað, svo að notað sé ódýrt orðalag Kára Stefánssonar, sem stofnað hefur erfðaefnastöð manna.

Vísindi eru í eðli sínu hvorki góð né vond. Þau hafa oft jákvæðar eða hagkvæmar afleiðingar, stundum ófyrirséðar afleiðingar og einstaka sinnum hræðilegar. Skynsamlegt er að gera ráð fyrir, að vísindin muni fremur fyrr en síðar byrja að reyna að einrækta fólk.

Auðvelt er sjá fyrir sér sölumennskuna, sem því mun fylgja. Sagt verður, að með einræktun megi framleiða mikilvæg lyf. Með einræktun megi rækta fólk, sem sé laust við erfðaeiginleika, er leiði til sjúkdóma. Með einræktun megi rækta hraustara og gáfaðra fólk.

Að vísu verður raunveruleikinn ekki svona einfaldur. Einræktun býr til hóp, þar sem allir sem einn geta verið næmir fyrir nýrri veiru. Með erfðafræðilegri þrengingu eykst hættan á, að allir farist úr sama óvænta sjúkdóminum. Þetta er þekkt fyrirbæri við innræktun dýra.

Siðfræðilegu spurningarnar eru mikilvægastar allra. Mun einræktað fólk hafa sjálfstæðan persónuleika, eigin sál? Ljóst er, að það á ekki föður, því að karlmenn verða óþarfir í heimi einræktunar. Hver verður guð þess, Ian Wilmut í Edinborg eða Kári Stefánsson í Reykjavík?

Clinton Bandaríkjaforseti hefur gefið rannsóknanefnd níutíu daga frest til að kanna lagalegar og siðferðilegar hömlur við einræktun, einkum með tilliti til afleiðinga hennar fyrir mannkynið. Tarschys, forstjóri Evrópuráðsins, heimtar reglur sem banni einræktun fólks.

Sennilega verða boð og bönn til lítils. En fólk ætti samt að staldra við og spyrja sig, hvort maðurinn sé kominn á það stig, að hann geti tekið við hlutverki guðs.

Jónas Kristjánsson

DV