Endurteknir harmleikir afbrota minna okkur á, að hér á landi er allur þorri afbrota framinn undir áhrifum áfengis. Ólögleg fíkniefni og læknislyf koma oft við sögu, en áfengisneyzla er þó yfirleitt uppistaða afbrotanna. Auk þess er hún einn af helztu slysavöldum hér á landi.
Það eru bjór og brennivín, sem eru uppistaðan í þjóðarharmleik Íslendinga. Ungt fólk kemur út í lífið án þess að geta haft samskipti við aðra án þess að liðka fyrir þeim með bjór fyrst og síðan brennivíni. Þaðan liggur leiðin yfir í ólögleg fíkniefni og læknislyf til viðbótar.
Þetta ferli er stutt eindreginni áfengisdýrkun Íslendinga. Hún sést bezt á venjulegum mannamótum, sem fara öðru vísi fram hér á landi en í siðmenntuðum löndum. Á árshátíðum og þorrablótum verður hversdagslegt fólk um síðir blindfullt og slefar hvert í eyru annars.
Börnin venjast við, að foreldrar komi af og til heim á skallanum um miðja nótt og verji fyrri hluta næsta dags í timburmönnum. Drykkjuveizlur í heimahúsum efla boðskapinn um, að ótæpileg drykkja sé þjóðfélagslega viðurkennd aðferð til að sleppa fram af sér taumunum.
Hagsmunaaðilar framleiðslu, innflutnings og smásölu áfengra drykkja hafa öflug ítök í stjórnmálum, sérstaklega ungliðadeildum, og hafa sjálft Verzlunarráð Íslands sem múrbrjót í tilraunum til að auka aðgengi fólks að áfengi og draga úr opinberum gjöldum, sem lögð eru á það.
Hagsmunaaðilar framleiðslu kosta sýndarrannsóknir, sem sagðar eru benda til, að sumt áfengi, að minnsta kosti rauðvín, sé hollt fyrir heilsuna og hreinsi að minnsta kosti æðarnar. Sannleikskjarninn í þessum fullyrðingum er, að vínber eru holl, en þau fást án áfengis.
Drykkfelldum fjölmiðlungum er annt um að koma á framfæri hverri nýrri sýndarrannsókn á vegum hagsmunaaðila, sem sýni fram á, að einhvers konar áfengi hafi einhvers konar jákvæð áhrif á heilsuna. Hin raunverulegu dæmi heima og erlendis sýna hið gagnstæða.
Skilaboðin um nytsemi áfengis í félagslífi, siðmenningu og heilsufari dynja á ungu fólki, sem sumt hvert er af erfðafræðilegum og öðrum ástæðum í áhættuhópum áfengisfíknar. Sumir verða hvítflibbarónar, aðrir venjulegir rónar, sumir afbrotamenn, aðrir aka fullir.
Nóg er til af hlutfallstölum um tíðni áfengisfíknar hér á landi og oft er talað um, að 1520% Íslendinga lendi í erfiðleikum vegna hennar. Að minnsta kosti er um að ræða fjölmennan minnihlutahóp, sem skiptir tugum þúsunda. Meðferð sjúkdómsins er oftast erfið og stundum ókleif.
Munurinn á Reykjavík annars vegar og London, Kaupmannahöfn og Amsterdam hins vegar er meðal annars sá, að hér er ekki hægt að ganga að næturlagi um Austurstræti eins og við getum áhyggjulaust á Leicester Square, Kongens Nytorv og Dam. Áfengi veldur mismuninum.
Löggæzlan hefur meira eða minna gefizt upp á að halda uppi lögum og rétti í miðborg Reykjavíkur og dómstólar nota áfengisneyzlu sem afsökun til að draga úr refsingum samkvæmt kenningunni: “Hann var fullur, greyið”. Þetta eru skilaboð yfirvalda um linkind gagnvart áfengi.
Það er sama, hversu oft við verðum vör við, að áfengi er ekki bara böl, heldur einkennisböl Íslendinga, sem virðast ekki geta litið framan í annað fólk án þess að vera undir áhrifum. Þvert ofan í staðreyndir eru skilaboðin í þjóðfélaginu þau, að áfengi sé heppilegt slökunarlyf.
Meðan skilaboðin eru þessi, munum við áfram frétta af nýjum og nýjum harmleikjum afbrota, sem eiga upphaf sitt í svokölluðum guðaveigum, sem lífgi sálaryl.
Jónas Kristjánsson
DV