Guðsþakkafé

Greinar

Fyrir fimm árum varð til sérstakt ráðstöfunarfé ráðherra vegna tilfallandi útgjalda, sem ekki var hægt að sjá fyrir á fjárlögum. Ráðherrar hafa ekki notað peningana þannig, heldur hneigzt að því að nota þá sem eins konar guðsþakkafé handa aðgangshörðu ölmusufólki.

Listar menntaráðherra fyrir árin 1992-1994 sýna vel þessa ölmusustefnu. Þar er löng röð smágreiðslna, sem hver fyrir sig er guðsþakkaverk. Samanlagt sýna þær, að heppilegra væri að taka samræmt á ölmusum, svo að beiningafólk hafi tiltölulega jafna aðstöðu til þeirra.

Kirkjukórinn í hreppi ráðherrans er áreiðanlega vel að hálfri milljón króna kominn. En hvað með alla hina kirkjukórana í landinu? Af hverju beinist guðsþakkaféð aðeins að einum kirkjukór? Er það af því að hann hefur betri aðstöðu en hinir til að afla ölmusunnar?

Við sjáum fyrir okkur ráðherra, sem nýtur þess að dreifa aurum til smælingja, er rekur á fjörur hans, en hefur í tvö ár ekki tíma til að ræða við málsaðila um vanefndir á framkvæmd samnings í ráðuneytinu. Málefnafólk kemst ekki að á biðstofu fyrir ölmusufólki.

Þetta minnir á aldraða miðaldahöfðingja, sem dreifðu smáaurum fyrir sálu sinni, en er í mótsögn við nútímann, sem byggist á jafnrétti og réttlæti, er á að koma í veg fyrir, að fólk fari á stafkarls stíg. Í stað tilviljanakenndrar ölmusu kemur skipulagt velferðarkerfi.

Tvö kerfi eru samhliða í landinu. Annars vegar er almennt kerfi, sem allir hafa aðgang að. Hins vegar eru svo skúffupeningar ráðherra, sem sitja lon og don við að gera mönnum greiða. Það fé, sem fer til slíkra guðsþakka, er ekki til ráðstöfunar í almenna kerfinu.

Raunar eru kerfin fleiri, því að víða eru millistig. Til dæmis eru húsbréf með reglum, sem gilda fyrir alla. Síðan eru félagslegar íbúðir, þar sem sumir hafa betri aðgang en aðrir. Loks er svo persónuleg greiðasemi hafnfirzkra bæjarstjóra við flokksbræður, ættingja og vini.

Ráðherrar og bæjarstjórar, sem einbeita sér að guðsþakkaverkum, eru áreiðanlega góðmenni. Sumir hafa gert einstaklingsbundin góðverk að sérgrein sinni og eru stoltir af því að kallast fyrirgreiðslumenn. En þetta eru úrelt vinnubrögð úr fortíðinni fyrir daga jafnréttis.

Það, sem einn fær, fá hinir ekki. Þess vegna hefur nútíminn byggt upp aðferðir til að dreifa peningum á þann hátt, að sem flestir hafi sem jafnasta aðstöðu til að njóta þeirra. Eru í því skyni settar upp reglugerðir, þar sem talin eru upp ýmis skilyrði og forgangsatriði.

Samtök íþróttafréttamanna hafa notið ölmusu menntaráðherra til styrktar starfsemi sinni. Án efa er þar um að ræða þurfandi stafkarla. En hvernig veit ráðherrann, að einmitt þau samtök séu aumust allra slíka af öllum hinum fjölmörgu stéttarfélögum í landinu?

Þar á ofan telur ráðherrann nauðsynlegt að skera niður flestar fjárveitingar til ýmissa sjóða, sem reyna með mismunandi árangri að dreifa peningum í samræmi við lög og reglugerðir, en ver sjálfur miklu af tíma sínum til að dreifa sams konar peningum í formi guðsþakkafjár.

Þetta stafar af, að menntaráðherra hefur, eins og fleiri slíkir, misst sjónar á hlutverki ráðherra og á eðli jafnréttishugtaksins að baki stjórnskipulags landsins. Úr samanlögðum guðsþökkum af þessu tagi verður til spilling, sem við sjáum alls staðar í stjórnkerfinu um þessar mundir.

Hvorki fjármálaráðherra né aðrir ráðherrar vilja taka á þessu, af því að þeir telja, að kjósendur muni hér eftir sem hingað til leyfa þeim að komast upp með það.

Jónas Kristjánsson

DV