Guðsþakkaverk ráðherra

Greinar

Hafa má til marks um afturhaldssemi íslenzka stjórnkerfisins, að enn tíðkast, að hver ráðherra hafi að meðaltali um átta milljónir króna á ári til að gefa húsgangsmönnum fyrir sálu sinni, rétt eins og höfðingjar fyrri alda, sem dreifðu skildingum til beiningamanna.

Þannig gefur forsætisráðherra ríkisstjórnarinnar aura til að klifra fjallið Ama Dablam, landbúnaðarráðherra aura til alþjóðlegrar ráðstefnu samkynhneigðra í Hollandi og menntamálaráðherra aura til minningarathafnar um Allen Ginsberg í New York.

Sameiginlegt einkenni allra guðsþakkaverka ráðherranna er, að tilviljun ræður, hver verður fyrir mildi höfðingjans. Ein björgunarsveit fær aura, en ekki hinar 20. Ein ráðstefna fær aura, en ekki hinar 200 Ein minningarathöfn fær aura, en ekki hinar 2000..

Þannig var þetta fyrr á öldum, þegar höfðingjar fóru um stræti og létu þjóna sína dreifa skildingum til brots af þeim bágstöddu, sem urðu á vegi þeirra. Ekki var spurt, hverjir væru verðastir gjafanna, því að þetta voru guðsþakkaverk, sem gerðu höfðingjana hólpna.

Það sem skilur lýðræðisþjóðfélag nútímans frá þjóðfélögum fyrri tíma er samt einmitt andstæðan við þessa gömlu guðsþakkaaðferð við að dreifa peningum um þjóðfélagið. Geðþóttaákvarðanir fyrri tíma hafa verið leystar af hólmi af fastmótuðum leikreglum réttarríkisins.

Til að jafna aðstöðumun í þjóðfélaginu eru sett upp form og reglur, sem farið er eftir. Þannig eru kerfisbundnir afslættir í skattakerfinu og öllum útveguð skólaganga og heilsugæzla nánast ókeypis. Þeir, sem fullnægja ákveðnum skilyrðum njóta jöfnunarinnar.

Í lýðræðisþjóðfélagi er reynt að finna leikreglur, sem segja, hvernig skuli dreifa peningum til björgunarsveita, svo að úthlutunin geti verið helzt sjálfvirk með öllu, en að öðrum kosti byggð á faglegu mati. Úrelt er, að ráðherrar mismuni björgunarsveitunum persónulega.

Við búum við afdankað kerfi guðsþakkaverka ráðherranna, af því að lýðræðishugsun hefur ekki náð að skjóta rótum. Það gleður hjarta ráðherranna að finna þakklæti hinna heppnu, sem lofa og prísa hann fyrir gjafmildina, rétt eins og ölmusumenn og aumingjar fyrri alda.

Það er hluti af íslenzku þjóðfélagi, að ráðherrar fái hver átta milljón króna sjóð á hverju ári til að gefa fyrir sálu sinni. Annars staðar í heiminum færi slík úthlutun fram eftir fyrirfram skilgreindum reglum á vegum faglegs aðila eða væri helzt sjálfvirk með öllu.

Hér ákveður menntamálaráðherra hins vegar persónulega, að meiri þörf sé á ritun bókar um sögu Loftleiða og Flugleiða í Luxemborg en annarra bóka á íslenzku og að nokkrir fjölbrautarskólanemar frekar en aðrir Íslendingar fari í heimsókn til Evrópusambandsins.

Einna skrautlegust eru guðsþakkaverk iðnaðarráðherra, sem tíðkar að gefa nýsköpunarstyrki til þeirra, sem lengst ganga í að apa það eftir, sem aðrir voru búnir að gera styrkjalaust. Styrkir ráðherrans ættu að heita eftiröpunarstyrkir, en ekki nýsköpunarstyrkir.

Fyrir utan átta milljónir á hvern ráðherra hafa ráðuneytin ýmsa óskipta liði til guðsþakkaverka framhjá lögum og reglum þjóðfélags, sem stærir sig af jafnrétti borgaranna. Þetta gerir ýmsum lykilmönnum ráðuneyta kleift að baða sig í lofi og prísi stafkarla.

Þannig starfar staðnað afturhaldsþjóðfélag, sem af og til er knúið gegn vilja sínum til framfara og aukins lýðræðis með tilskipunum frá Evrópusambandinu.

Jónas Kristjánsson

DV