Gufuvélin er að springa

Greinar

Síðari atlaga ríkisstjórnarinnar að fjárlagahallanum er raunhæfari en hin fyrri. Í aðgerðum síðustu helgar er minna af sjónhverfingum en var í lotunni fyrir þremur vikum. Lagfæring fjárlagafrumvarpsins er því markverðari og áhrifameiri í þetta síðara skipti.

Ástandið er orðið svo alvarlegt, að sjónhverfingar nægja ekki lengur. Ríkisstjórnin hefur orðið uppiskroppa með töfrabrögð og telur sér sem betur fer skylt að mæta vandanum að hluta til með raunverulegum aðgerðum. Hún er farin að skera niður og skattleggja.

Í stórum dráttum má segja, að vandinn felist aðallega í, að þjóðin lifir um efni fram. Ríkið, fyrirtækin og fjölskyldurnar nota peninga, sem hafa ekki verðmæti að baki. Á næsta ári stefnir þessi þensla í viðskiptahalla, sem metinn hefur verið á sex til tíu milljarða króna.

Við þessar aðstæður verður að stíga hemlana í botn. Ríkið þarf að skera niður ráðagerðir um framkvæmdir og rekstur á næsta ári. Fyrirtækin verða að sæta tekjurýrnun vegna skattlagningar. Og fjölskyldurnar neyðast til að sætta sig við óbreyttan eða skertan kaupmátt.

Ef ríkisstjórninni tekst að láta aðgerðirnar gegn þenslunni koma tiltölulega jafnt niður á öllum þessum þremur aðilum, getur hún vænzt friðar um þær, ekki sízt ef ríkið verður látið bera sinn hlut að fullu. Nýja atlagan bendir til, að svo geti hugsanlega orðið.

Til að ríkið sæti nægu aðhaldi er brýnt, að umræðan um aukafjárveitingar leiði til nýrra vinnubragða, sem Magnús Pétursson hagsýslustjóri hefur bent á. Í kjölfar fjárlagafrumvarps þarf að leggja fram frumvarp til fjáraukalaga, sem afgreitt verði fyrir þinglok í vor.

Í raun þurfa ríkisstjórn og fjárveitinganefnd Alþingis að hafa nokkurn veginn frá degi til dags rétta hugmynd um, hvað er að gerast í ríkisfjármálunum og hver eru frávikin frá áætlun fjárlaga. Frávikin á að rekja í fjáraukalögum á sjálfu fjárhagsárinu, en ekki löngu síðar.

Sumar aukafjárveitingar eru eðlileg afleiðing breyttra aðstæðna, til dæmis í verðlagi eða kauptöxtum, í tilboðsverðum eða lagabreytingum. Aðrar stafa af skorti á aðhaldi í einstökum stofnunum eða skyndilegri gjafmildi ráðherra í skálaræðum á hátíðastundum.

Hvert svo sem eðli aukafjárveitinga er hverju sinni, mega þær ekki vera leyndarmál. Þær eiga skilið eðlilega umfjöllun ríkisstjórnar og fjárveitinganefndar, þar sem eru fulltrúar allra þeirra stjórnmálaflokka, sem sæti eiga á Alþingi, svo og opinbera umræðu í fjölmiðlum.

Til þess að ríkisstjórn, Alþingi og aðrir, sem um málið fjalla, geti hugsað og talað af fullu viti um stöðu ríkisfjármála, er brýnt, að fjárlagafrumvarpið nái yfir alla þætti ríkisins og stofnana á þess vegum. Deilur um jafnvægi í svokölluðum A-hluta þess segja of litla sögu.

Einnig er komið í eindaga, að ráðamenn þjóðarinnar átti sig á, að sífelldur niðurskurður félagslegra útgjalda og stöðug skattaukning leiðir til, að augu fólks beinast eindregnar að óeðlilegum forgangi niðurgreiðslna, uppbóta og annarra styrkja til hefðbundins landbúnaðar.

Með síðustu aðgerðum hefur ríkisstjórnin stigið léttilega á hemlana til að draga úr þenslunni, sem hótar sex til tíu milljarða viðskiptahalla og viðeigandi gengishruni krónunnar á næsta ári. Hér hefur verið bent á nokkur atriði, sem þurfa að fylgja, svo að árangur náist.

Efnahagsvél þjóðarinnar leikur nú á reiðiskjálfi. Draga verður snarlega úr þrýstingnum, áður en hún springur. Okkur er engrar annarrar undankomu auðið.

Jónas Kristjánsson

DV