Gullin dögun verndar

Punktar

Gullin dögun heitir hægri öfgaflokkur, sem vex hröðum skrefum í rústum þess, sem við þekkjum sem Grikkland. Eitt kann flokkurinn umfram aðra, svipað og öfgaflokkar í löndum múslima. Hann hjálpar alþýðunni. Smáfólk þorir ekki að heimsækja ríkiskontóra vegna hroka blýantsnagara. Flokkurinn sendir menn með smáfólkinu til að passa það á kontórunum. Hann rekur súpueldhús og hleypur í skarðið, þegar velferð hins opinbera hrynur. Aldraðir og öryrkjar og fjöldi þeirra, sem minna mega sín, flykkjast undir merki Gullinnar dögunar. Vinstri flokkar, sem bara þykjast vera alþýðuvinir, gætu lært af Gullinni dögun.