Gunnar Thoroddsen.

Greinar

Gunnar Thoroddsen var í hópi merkustu stjórnmálamanna landsins á þessari öld. Hann var einn sá allra síðasti af hinum stóru, sem gnæfðu upp úr meðalmennsku íslenzkra stjórnmála og gáfu þeim reisn umfram hið hversdagslega.

Stjórnmálaferill Gunnars var óvenju langur, spannaði hálfa öld. Hann var kjörinn á þing árið 1933, aðeins 23 ára, þá enn laganemi í háskóla. Á þessari hálfu öld sat hann samtals 43 þing og var því reyndasti þingmaðurinn.

Gunnar aflaði sér líka þekkingar og reynslu á öðrum sviðum þjóðlífsins. Hann var lengst af prófessor við Háskóla Íslands. Einnig var hann um tíma sendiherra í Kaupmannahöfn og ennfremur hæstaréttardómari.

Hinn óvenju næmi skilningur Gunnars á kjósendum kom fljótt í ljós, þegar hann varð borgarstjóri í Reykjavík árið 1947, aðeins 37 ára gamall. Þá jók hann meirihluta flokks síns í hverjum kosningunum á fætur öðrum.

Í þá daga var þröngsýni flokkanna meiri en nú. Gunnar vék sér undan flokksaga í forsetakosningunum 1952 og mátti æ síðan þola hatur ýmissa flokksmanna. Nú á tímum þættu atvik af þessu tagi varla í frásögur færandi.

Hámarki ferils stjórnmálanna náði Gunnar sem forsætisráðherra ríkisstjórnarinnar, sem sat fram á þetta ár. Óvíst er, að nokkur ríkisstjórn hafi notið eins mikilla vinsælda lengst af valdatímanum, þótt ósamstæð væri.

Hæfileikar Gunnars nutu sín vel í þeirri ríkisstjórn. Meðalmennin í ráðherrastólunum vildu yfirleitt fara í hár saman, eins og þeir höfðu áður vanið sig á, en honum tókst með kurteisi að koma þeim upp úr slíku.

Gunnar var meiri ræðumaður en aðrir stjórnmálamenn síðustu ára. Hann forðaðist þras og illindi og hafði lag á að lyfta sér í orðaval, sem almenningur skildi og samþykkti.

Á réttum tímamótum flutti hann setninguna: “Vilji er allt, sem þarf”. Þessi fimm orð áttu áreiðanlega meiri þátt en þúsund önnur í að afla skilnings á gerðum þáverandi ríkisstjórnar og veita henni endurnýjaðan vinnufrið.

Einnig skar Gunnar sig úr í æðruleysi. Þegar aðrir sýndu óþolinmæði og jafnvel angist, var hann hinn rólegasti. Hann vissi, að einstakir bardagar skiptu minna máli en styrjöldin í heild og lét sér því hvergi bregða.

Þetta var þáttur í nákvæmri taflfléttulist Gunnars. Hann hafði lag á að flétta saman leikjum og tefla skákum í stöður, þar sem hann gat valið milli leikja, eftir viðbrögðum þeirra stjórnmálaafla, sem hann tefldi við hverju sinni.

Alla tíð ræktaði Gunnar önnur áhugamál en stjórnmálin ein. Hann var mikill tónlistarmaður og samkvæmismaður. Hann var menntaður í þess orðs víðasta og bezta skilningi, enda hvatti hann stjórnmálamenn til að skilja hið mannlega.

Mesta lán Gunnars var að vera kvæntur Völu Ásgeirsdóttur, sem stóð við hlið hans í blíðu og stríðu og naut persónulegrar hylli í svipuðum mæli og hann sjálfur. Hún átti mikinn þátt í að gera heimili þeirra að miðstöð í þjóðlífinu.

Við andlát og útför Gunnars Thoroddsen vill DV flytja Völu og börnum þeirra, öðrum ættingjum og vinum sérstakar samúðarkveðjur og minna um leið þjóðina á síðustu hvatningu Gunnars: “Hið mannlega sjónarmið verður að fá að njóta sín.”

Jónas Kristjánsson.

DV