Gutenbergs Hus.

Greinar

Í frelsisbaráttu Íslendinga var einn hornsteinninn, að verzlunin skyldi verða innlend. Jón Sigurðsson lagði sérstaka áherzlu á þetta í ritum sínum á síðustu öld. Og smám saman hefur það tekizt að verulegu leyti.

Enn eimir þó eftir af tilhneigingu danskra stórkaupmanna að líta á Ísland sem hluta Danaveldis. Þeir beita framleiðendur og rétthafa í öðrum löndum kúgun til að fá Íslandsviðskipti þeirra til að fara um Kaupmannahöfn.

Ein kunnasta prentvélategund í heimi er bandarísk og nefnist Goss. Danskt fyrirtæki að nafni Bie þykist eiga íslenzka markaðinn fyrir þessar vélar. Íslenzkar prentsmiðjur hafa hins vegar ekki kært sig um viðskipti við Bie.

Þar sem Goss lætur Bie kúga sig, hafa slíkar vélar ekki verið teknar í notkun hér á landi nema í einu tilviki, þegar tókst að komast framhjá Bie. Síðan hefur Bie verið mjög á verði við að gæta nýlendu sinnar.

Danskir umboðsmenn eru ekki einir um þessa hitu. Á sínum tíma voru Compugraphic tölvusetningarvélar taldar hagkvæmastar í verði og gæðum. Norskur heildsali þóttist hins vegar eiga Ísland og lagði þar að auki 100% ofan á tækin.

Fyrir bragðið var mjög dræm sala á þessum tækjum til Íslands, unz hinn bandaríski framleiðandi áttaði sig á, að ástandið var ekki eðlilegt. Hann fékk sér íslenzka umboðsmenn og hafa viðskiptin síðan verið skapleg.

Fyrir um það bil áratug reyndi prentsmiðjan Hilmir að fá leyfi til útgáfu Andrésar andar á íslenzku. Umboðsmaður Walt Disney sat í Kaupmannahöfn og fór undan í flæmingi til að gæta hagsmuna hins danska útgefanda.

Enn á ný hefur verið reynt að flytja þennan útgáfurétt til Íslands. Útgáfufélagið Vaka hefur staðið í langvinnum samningum við Walt Disney umboðið og taldi sig fyrir skömmu vera komið á lokastig samkomulags.

Þá setti hið danska útgáfufélag, Gutenbergs Hus, í annað sinn flein í hjólið. Það sá fyrir missi á sölu hinnar dönsku útgáfu til Íslands. Og í þetta sinn þykist Gutenbergs Hus sjálft ætla að gefa Andrés út á íslenzku.

Sem betur fer hefur sala á hinum danska Andrési á Íslandi fallið úr rúmum 7.000 eintökum í 3.000. En betur má, ef Íslendingar vilja losna við þessa nýlendustefnu, sem heitir “kúltúrimperíalismi” á skandinavisku.

Gutenbergs Hus er með puttana í fleiri krukkum. Útgáfufélagið Fjölvi missti nýlega umboðið fyrir Ástríksbækurnar. Að yfirvarpi var höfð neitun Fjölva að greiða þrefalt hærri réttindaprósentu en áður var í gildi.

En Gutenbergs Hus var þar raunar að baki. Það er nú byrjað að gefa Ástrík út á íslenzku. Þannig heldur hið stórdanska fyrirtæki ekki aðeins markaði fyrir íslenzkum fyrirtækjum, heldur sækir beinlínis fram til vaxandi áhrifa.

Innkaupasamband bóksala hefur gert Gutenbergs Hus þessar innrásir kleifar. Það hefur tekið að sér að vera söluþjónn hins danska verzlunarvalds og hefur af því lítinn sóma.

Reynslan frá öðrum sviðum sýnir þó, að Íslendingar geta staðið gegn innrásum af þessu tagi, ef þeir kæra sig um. Og nú reynir á, hvort nýlendustefna Gutenbergs Hus nær fótfestu í þessari lotu. Við getum hafnað vörum þess.

Til dæmis Anders and, Alt for damerne, Hendes verden, Hjemmet og bókinni Hrakningasaga Ástríks.

Jónas Kristjánsson.

DV