Gyðingarnir fimm

Greinar

Anthony Zinni er gamall hershöfðingi úr Víetnamstríðinu. Hann hefur mikið verið notaður af bandarískum stjórnvöldum til að slökkva elda í þriðja heiminum. Ríkisstjórn George W. Bush notaði hann fram í október s.l., þegar hann lýsti yfir andstöðu við framvindu hernáms Íraks og þróun mála þar.

Nú hefur Zinni kastað pólitískri sprengju á pólitíkina í Bandaríkjunum. Hann kennir fimm nafngreindum mönnum um stríðið við Írak. Þeir eru allir róttækt hægri sinnaðir í pólitík og allir gyðingar. Þetta eru þeir Dough Feith, Paul Wolfowitz, Lewis Libby, Richard Perle og Elliot Abrams.

Feith og Wolfowitz eru ráðgjafar Donald H. Rumsfeld stríðsmálaráðherra, Lewis Libby er ráðgjafi Dick Cheney varaforseta, Elliot Abrams er ráðgjafi Condoleezza Rice öryggisstjóra og Richard Perle er almennur hugmyndafræðingur stjórnvalda. Rumsfeld, Cheney og Rice hafa síðan eyra Bush.

Hugmyndin, sem Zinni er að reyna að koma á framfæri án þess að segja hana beint, er, að þessir menn séu frekar að gæta hagsmuna Ísraels en Bandaríkjanna. Hann fetar í fótspor Ernest Hollings öldungadeildarþingmanns, sem telur hagsmuni Ísraels hafa ráðið styrjöld Bandaríkjanna gegn Írak.

Það má hafa til marks um þreytu Bandaríkjamanna á þessu tilgangslitla stríði, að hvorki helztu ráðamenn demókrata né helztu ráðamenn repúblikana hafa andmælt Zinni eða Hollings. Sá síðarnefndi segir raunar, að stríðinu sé ætlað að draga kjörfylgi gyðinga frá demókrötum til repúblikana í haust.

Ekki er ástæða til að ætla, að heimspólitískur kapall hafi verið lagður í Ísrael. Hinu er ekki að leyna, að stefna Bush Bandaríkjaforseta hefur verið óvenjulega höll undir Ísrael og Ariel Sharon forsætisráðherra, þótt Sharon hafi hvað eftir annað komið illu af stað á hernumdu svæðunum.

Ekki er nóg með, að Bush styðji Sharon takmarkalaust, heldur hermir bandaríski herinn í Írak eftir ísraelska hernum í Palestínu. Stríðsglæpirnir í Írak minna á stríðsglæpina í Palestínu. Á báðum stöðum eru á ferð ríki, sem telja sig ekki skulda alþjóðasamfélaginu reikningsskil gerða sinna.

Ásakanir Zinni hljóta að beina augum manna að óeðlilegu bandalagi Bandaríkjanna og Ísraels, sem hefur lengi hindrað sættir milli þjóða Vesturlanda annars vegar og þjóða Íslams hins vegar. Stríðið gegn Írak hefur svo framleitt almennt og djúpstætt hatur múslima á “staðföstum” Vesturlandabúum.

Við pólitíska sambúð á hægri kanti stjórnmálanna bætist svo róttækur stuðningur kristinna ofsatrúarmanna í Bandaríkjunum við Ísrael, þar á meðal nokkurra ráðherra í ríkisstjórninni.

Jónas Kristjánsson

DV