Hábrekknavað

Frá Höll í Þverárhlíð til Torfhvalastaða við Langavatn.

Hábrekknavað hjá Munaðarnesi hefur allar aldir verið þekktasta vað á Norðurá í Borgarfirði. Sturlungar fóru þar um í herferðum sínum úr Dölum. Á þeim tíma voru Sópandaskarð og Langavatnsdalur helzta samgönguleiðin úr Dölum og Hábrekknavað var beint framhald hennar. Að vaðinu komust menn líka um Múlaveg af Snæfellsnesi. Frá vaðinu fóru menn að Ámótavaði á Hvítá, þar sem Reykjadalsá fellur í hana. Þaðan komust menn svo suður á land um Uxahryggi eða Gagnheiði. Ef menn héldu hins vegar inn Hvítársíðu án þess að fara yfir Hvítá, komust þeir upp á Arnarvatnsheiði og norður í land.

Förum frá Höll vestur eftir þjóðvegi 527 og frá veginum suðvestur um Digramúla að Norðurá og síðan niður með ánni andspænis sumarhúsahverfinu í Munaðarnesi. Þar förum við yfir ána á Hábrekknavaði um eyju í ánni og síðan áfram til suðurs á bakkanum handan árinnar að bænum Munaðarnesi. Þaðan förum við norður að þjóðvegi 1, yfir hann og sumarhúsaveg um Stóru-Skóga. Sú leið liggur vestur af norðri meðfram Hólmavatni vestanverðu og síðan norður að Múlakoti undir Múlakotsmúla. Þar förum við slóð, sem krækir inn í Fífudal. Þaðan er hægt að fara beint norður Fífudal um Skallagrímssel á Beilárvelli við Torfhvalastaði. Við förum aðeins upp í Fífudal og síðan slóð til baka suður úr honum niður á flatlendið og síðan aftur til norðurs upp í Grísatungu. Þaðan er vegur um Bárðarfjall, vestan Brúnavatns og niður á Beilárvelli norðan Staðarhnjúks. Þar erum við komin að Langavatni og förum stutta leið austan vatnsins að fjallakofanum á Torfhvalastöðum, í 220 m hæð.

24,5 km
Borgarfjörður-Mýrar

Skálar:
Torfhvalastaðir: N64 46.940 W21 45.546.

Nálægir ferlar: Hvítársíða, Jafnaskarð, Sópandaskarð.
Nálægar leiðir: Ámótsvað, Langavatn, Skarðheiðarvegur, Klif.

Skrásetjari: Steingrímur Kristinsson
Heimild: Steingrímur Kristinsson og Örn H. Bjarnason