Hádegið

Veitingar

Hádegið frá mánudegi til föstudags er hagkvæmasti tíminn til að fara út að borða, ef fólk getur komið því við fyrir önnum. Þá gilda allt önnur verð en aðra daga, sumpart gjafverð, til dæmis á sumum af beztu veitingahúsum landsins, svo sem í Listasafninu á Holti, Humarhúsinu, Primavera og Þremur Frökkum.

Þetta truflar að vísu lífsstílinn, ef fólk er vant að borða almennilega á morgnana og kvöldin og að fá sér aðeins snarl á hlaupum í hádeginu. Viðskiptamálsverðir, sem voru vinsælir fyrr á árum, eru vegna tímaskorts að mestu úr sögunni. Þetta kann að vera skýringin á, hversu illa veitingahús eru sótt í hádeginu og hversu langt þau ganga mörg hver í tilboðum sínum.

Listasafnið í Holti við Bergstaðastræti býður úrvals þjónustu og breytilegan þriggja rétta matseðil með vali í öllum þáttum fyrir tæpar 1800 krónur. Fyrir þetta verð er boðin matreiðsla, sem að gæðum gefur ekki eftir því, sem boðið er á kvöldin, landsins bezta matreiðsla um þessar mundir, frönsk cuisine nouvelle með ferskum hráefnum, nettum eldunartímum, lítilli fitu og engu hveiti, áherzlu á fisk og grænmeti.

Þriggja rétta matseðill með vali í öllum þáttum er einnig í boði á Primavera við Austurstræti fyrir 1350 krónur. Þar er eldað upp á eins konar ítalska cucina novella, sem er svipuð þeirri frönsku, en einfaldari í sniðum. Primavera er þó ekki eins stílhreint í matargerðarlist og Listasafnið og rambar stundum út af línunni.

Jómfrúin við Lækjargötu er indælt afturhvarf til fortíðar og býður nokkra rétti dagsins að hætti gamaldags danskra frokost-veitingahúsa á tæpar 900 krónur að meðtaltali og enn fjölskrúðugra úrval smurbrauðsneiða að hætti Idu Davidsen á 750 krónur heilar og 475 krónur hálfar.

Aðrir góðir matreiðslustaðir hafa minna úrval í hádegistilboðinu. Þrír Frakkar, í notalegum húsakynnum við Baldursgötu, bjóða ágæta og tæra súpu og fjölbreytt val af vel matreiddum fiskréttum á tæpar 1000 krónur að meðtali.

Humarhúsið við Lækjargötu er í þessum flokki með góða og tæra súpu og val milli nokkurra aðalrétta á tæpar 1200 krónur að meðaltali. Staðurinn sameinar góða og stílhreina matreiðslu og þægileg og stílhrein húsakynni.

Lækjarbrekka í sömu húsaröð við Lækjargötu býður þykka hveitisúpu að íslenzkum hætti og fjölbreytt val misjafnt eldaðra aðalrétta á tæpar 1100 krónur. Þótt eldamennska sé brokkgeng, er þjónusta góð og aðstæður notalegar.

Tilveran við Linnetstíg í Hafnarfirði býður svipaðan kost, þykka hveitisúpu og nokkra aðalrétti á tæpar 900 krónur að meðaltali. Laugaás við Laugarásveg var á svipuðum nótum í stíl og gæðum, en hefur því miður ekki borið sitt barr að undanförnu. Þar kostar súpa og val milli aðalrétta 1300 krónur að meðaltali.

Kínamúrinn við Hlemmtorg hefur léttari matreiðslu og býður súpu og val milli nokkurra aðalrétta á tæpar 600 krónur. Lægra verður tæpast komizt í verðlagi. Kínverska matreiðslan er raunar betri í Kínahúsinu við Lækjargötu, þar sem er boðinn fastur rækjuréttur á tæpar 600 krónur.

Af stöðum með engu eða þröngu vali í hádeginu ber fremsta að nefna Tjörnina við Templarasund, þar sem súpa og fiskur dagsins fást á 1000 krónur. Þarnæst Rex við Austurstræti, þar sem val milli tveggja rétta kostar 1200 krónur. Síðan Iðnó við Tjörnina, þar sem súpa og fiskur dagsins kosta 1600 krónur.

Creole Mex efst við Laugaveg býður súpu dagsins, og val milli nokkurra aðalrétta á tæpar 800 krónur. Caruso við Bankastræti er með tvenns konar val tvíréttað á tæpar 800 krónur. Ítalía við Laugaveg og Hard Rock í Kringlunni bjóða súpu og aðalrétt á 750 krónur. Í Madonnu við Rauðarárstíg kosta súpa og aðalréttur tæpar 800 krónur og á Amigos við Tryggvagötu tæpar 900 krónur.

Góð salatborð eru á nokkrum stöðum, einkum hjá Eika við Fákafen og Pósthússtræti á tæpar 800 krónur, Pottinum og pönnunni við Nóatún á tæpar 900 krónur og á Aski við Suðurlandsbraut.

Yfirleitt eru þetta staðir, sem hafa fengið jákvæða umsögn í veitingarýni DV á undanförnum mánuðum. Fleiri staðir eru á lágum nótum í hádegisverði, en státa ekki af svo frambærilegri matreiðslu, að hægt sé að mæla með þeim.

Jónas Kristjánsson

DV