Hæg er leið til helvítis.

Greinar

Ísland er að verða gjaldþrota, meðan gersamlega ábyrgðarlausir landsherrar spjalla um, hvort veita eigi 80 milljónum króna í styrki til útgerðar og 30 milljónum í viðbótarstyrki til landbúnaðar. Þeir haga sér sem þeir væru á tunglinu.

Fyrir aðeins þremur árum, 1979, fóru 13% af útflutningstekjum okkar í að greiða vexti og afborganir af erlendum lánum. Í ár munu 19-20% af útflutningstekjunum hverfa í þessa hít. Þetta er rosalegt stökk á aðeins þremur árum.

Heildarskuldir Íslands hafa á þessu skamma árabili hækkað úr 35% í 40% þjóðarframleiðslu eins árs. Þær jafngilda nú orðið fimm mánaða þjóðarframleiðslu og nema um 80.000 nýkrónum á hvert mannsbarn í landinu, þar á meðal börn og gamalmenni.

Svo virðist sem þetta ástand eigi enn eftir að versna. Landsherrarnir hafa fyrir framan sig tölur Þjóðhagsstofnunar, þar sem spáð er 7,5% viðskiptahalla á næsta ári og 7,5% árið þar á eftir. Fyrir þessum halla þarf að slá erlend lán.

Þetta getur aðeins endað með skelfingu, nema landsherrarnir vakni af sætum draumum skuttogarakaupa og annarra fyrirgreiðslna Framkvæmdastofnunar og Byggðasjóðs. Þeir verða að hætta að ímynda sér, að þeir vaði í peningum.

Landsherrarnir eru að veðsetja börnin okkar. Þeir spara sér erfiðið við að stjórna eins og menn með því að varpa ábyrgðinni á þá, sem eiga að taka við á næstu áratugum. Þetta mun örugglega leiða til landflótta og hruns þjóðfélagsins.

Það kemur ekki til nokkurra mála, að við getum leyft landsherrunum að halda áfram með þessum hætti. Viðskiptahallinn á næsta ári má ekki verða neinn, né heldur árin þar á eftir. Stöðva verður hina hægu leið til helvítis.

Við getum hjálpað landsherrunum með því að viðurkenna sjálf, að við lifum um efni fram. Við kaupum erlendan gjaldeyri á útsöluverði til að afla okkur lúxusvarnings. Við verðum að átta okkur á, að fyrir þessari eyðslu er ekki nokkur grunnur.

En það má ekki nefna orðið “gengislækkun” í eyru sumra ráðherranna, svo fjarri eru þeir hinum efnahagslega raunveruleika. Ef skrá ætti gengið rétt og stöðva útsölu gjaldeyris, mundi þurfa að minnsta kosti 30% gengislækkun.

Önnur aðferð til að stöðva hrunið er að draga úr fjárfestingu. Hún nemur nú 25% eða fjórðungi þjóðarframleiðslunnar. Þetta er of hátt hlutfall, jafnvel þótt svo vel væri, að fjárfestingin væri í nytsamlegum og arðbærum hlutum.

En ríkið hefur byggt upp flókið kerfi Seðlabankafrystingar, Byggðasjóðs og Framkvæmdastofnunar, Fiskveiðasjóðs og Veðdeildar landbúnaðarins til að tryggja, að fjármagnið festist ekki í arðbærum hlutum, heldur gæluverkefnum.

Árum saman hefur fjárfesting í hinum hefðbundna landbúnaði, offramleiðslunni á kjöti og mjólkurvörum verið hin sama eða meiri en fjárfestingin í iðnaði. Þessi rányrkja fær sjálfvirk fjárfestingarlán svo að styrkirnir megi dafna og blómgast.

Á sama tíma hefur ríkið stuðlað að rányrkju hafsins og óhóflegri stækkun fiskiskipaflotans með því að útvega 85-105% lán til skipakaupa. Ofan á þetta eru landsherrarnir svo að gamna sér við steinullarver, sykurver og önnur vonlaus ver.

Ef stöðvuð verður hin geðveikislega fjárfestingarstefna landsherranna og þjóðin áttar sig á, að gengið er rangt skráð, er hægt að hindra þjóðargjaldþrot. En það verður ekki gert með núverandi japli, jamli og fuðri.

Jónas Kristjánsson

DV