Hægfara sókn lýðræðis

Greinar

Lýðræðishugsjónin varð fyrir áfalli í forsetakosningunum á Filippseyjum. Þar tókst Marcosi forseta að halda völdum með víðtækum kosningasvikum. Glatað er tækifærið til að gera Filippseyjar að lýðræðisríki, þar sem unnt sé að skipta um stjórnvöld í kosningum.

Á Haiti virðist annað tækifæri hafa runnið úr greipum lýðræðinu. Þar halda menn Duvaliers völdum, þótt sjálfur hafi hann flúið land. Ógnarstjórnin kann að minnka nokkuð, en ekkert bendir til, að minnsti vottur lýðræðis sé væntanlegur hjá hinni þjökuðu þjóð.

En lýðræðið bíður ekki alltaf ósigur fyrir harðstjórn og eins flokks kerfi. Portúgalir gengu um helgina til heiðarlegra kosninga og völdu óvæntan sigurvegara. Í landi harðstjóranna Salazars og Caetano hefur lýðræðið á skömmum tíma treyst sig varanlega í sessi.

Ef litið er á heiminn í heild, verður ljóst, að álfunum hefur vegnað misjafnlega vel. Í Vestur-Evrópu hefur lýðræðið náð fullu húsi stiga, er herforingjar hafa verið hraktir frá völdum á Spáni, í Portúgal og Grikklandi og eru á undanhaldi í hinu hálfevrópska Tyrklandi.

Á allra síðustu árum hefur mestur árangur náðst í Suður- og Mið-Ameríku. Fyrir aðeins átta árum voru þar aðeins sex lýðræðisríki, en nú eru þau orðin sextán. Í einungis fimm ríkjum álfunnar hanga harðstjórar enn við völd. Þetta eru veruleg umskipti á skömmum tíma.

Eftir síðustu heimsstyrjöld leit út fyrir, að Suður-Ameríka yrði ein af ríku álfunum, í flokki með Norður-Ameríku og Vestur-Evrópu. Lífskjör voru orðin svipuð og í Evrópu og virtust stefna fram úr, auk þess sem lýðræði var víðast hvar í sókn í álfunni.

Síðan hafa lögreglu- og herforingjar riðið þar húsum. Þeir rændu þjóðirnar frelsi og mannréttindum, fé og framavonum. Suður-Ameríka hrasaði niður á stig þriðja heimsins. En nú eru loksins aftur bjartari horfur í þessari álfu, sem missti á sínum tíma af lestinni.

Ríkin þrjú syðst í álfunni, Argentína, Chile og Uruguay, hafa oft verið nefnd sem ríki hinna miklu vona, sem brustu. Nú hefur lýðræði verið endurreist í Argentínu og er á innleið í Uruguay. Aðeins í Chile hefur harðstjóranum Pinochet tekizt að halda völdum.

Í sunnanverðri Asíu hefur víða verið tvísýn barátta milli lýðræðis og harðstjórnar. Þar eru Indverjar stolt lýðræðisins, skipta um ríkisstjórnir í heiðarlegum kosningum. Um leið hefur þeim tekizt að bægja frá hinni árvissu hungursneyð, sem áður einkenndi landið.

En lýðræðið hefur engan veginn unnið endanlegan sigur í Indlandi. Hið sama má segja um nýríku löndin í Suðaustur-Asíu, Suður-Kóreu, Taiwan og Singapúr. Þar hefur prentfrelsi verið skert. Slíkar stjórnvaldsgerðir eru jafnan fyrirboði áfalla fyrir lýðræði.

Í Afríku er ástandið bókstaflega svart. Þar er í mesta lagi hægt að tala um eitt lýðræðisríki, Botswana. Sum ríki álfunnar eru mild eins flokks ríki, svo sem Egyptaland og Kenya. En almenna reglan er, að harðstjórar sitja þar yfir hlut fátækasta fólks í heimi.

Telja verður, að lýðræði eigi litla möguleika í Afríku, ekki meiri en í Austur-Evrópu, arabaheiminum og Norður-Asíu. Beztu sóknarmöguleikar þess hafa að undanförnu verið og eru enn í Rómönsku Ameríku. Og tvísýnast er ástandið í sunnanverðri Asíu.

Þegar lýðræði bíður annan eins ósigur og við höfum nú séð á Filippseyjum, er nauðsynlegt að lýðræðisríkin séu einhuga um að andæfa þeim, sem stal kosningunum.

Jónas Kristjánsson

DV