Ólafur F. Magnússon gæti kallazt hægri grænn. Hann hefur til skamms tíma verið fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur og einn af helztu talsmönnum náttúruverndar. Þessi pólitíska blanda gekk ekki upp. Ólafur var frystur á minnisstæðan hátt á landsfundi í vetur.
Stjórnmálaflokkar rúma yfirleitt margvísleg sjónarmið. Þeir eru fyrst og fremst kosningavélar til að koma mönnum til valda og reyna því að breiða út faðminn. “Í húsi föður míns eru margar vistarverur” er kunn biblíutilvitnun, sem Jóhann Hafstein notaði eitt sinn á frægum landsfundi.
Að svo miklu leyti sem flokkar hvíla á hugmyndafræðilegum grunni, endurspegla þeir átök fyrri tíma, svo sem stéttabaráttu, velferð og markaðsbúskap. Þeim var ekki komið á fót til að taka afstöðu til fólksflutninga innanlands, náttúruverndar eða afgjalds fyrir notkun auðlinda sjávar.
Enn síður veitir hugmyndagrunnur flokkanna greið svör við afstöðunni til flugvallar í Vatnsmýri eða hagsmuna aldraðra og öryrkja, sem undanfarið hafa verið tilefni ráðagerða um stofnun tímabundinna eins máls stjórnmálaflokka. Gömlu flokkarnir eru gamlir belgir með gömlu víni.
Þetta flækir stöðu flokka og kjósenda. Sífellt fjölgar ágreiningsefnum, sem ekki verða skilgreind samkvæmt flokkakerfinu. Sum þeirra eru svo heit, að gömlu og grónu flokkarnir treysta sér ekki til að taka afstöðu til þeirra af ótta við að fæla frá sér kjósendur á annan veginn eða hinn.
Kjósendur standa andspænis vali um forgangsröð. Hvort vegur til dæmis þyngra, hefðbundið viðhorf til flokks eða nýtt mál á borð við stórvirkjun í óbyggðum eystra. Sumir komast að niðurstöðu um flokkaskipti eða tryggð við flokk, en aðrir lenda í pattstöðu og geta engan flokk stutt.
Sagan segir okkur, að hér á landi sé rúm fyrir fjóra stjórnmálaflokka, sem allir séu fyrst og fremst kosningavélar. Nútíminn er greinilega svo flókinn og síbreytilegur, að erfitt er að finna öllum mikilvægum sjónarmiðum stað í kerfinu. Þess vegna skjóta eins máls flokkar upp kolli.
Sjálfstæðisflokkurinn var soðinn úr íhaldsflokki embættismanna og frjálslyndum flokki kaupsýslumanna. Þetta ótrúlega hjónaband hefur haldizt um áratugi. Nú er hins vegar svo komið, að flokkurinn vill tæpast rúma suma umhverfissinna og vandar þeim ekki kveðjurnar á landsfundi.
Umhverfissinnar, sem vilja ekki fyrirhugaðar stórvirkjanir á hálendinu, verða því að ákveða, hvort vegi þyngra í valinu, þau atriði, sem áður leiddu til stuðnings þeirra við flokka á borð við Sjálfstæðis- eða Framsóknarflokk eða stuðningur þessara flokka við virkjanir á hálendinu.
Forgangsröð einstakra kjósenda getur breytzt. Þannig ákveða sumir að refsa flokki sínum í einum kosningum, en falla svo aftur í faðm flokksins í kosningunum þar á eftir. Þannig verða til sveiflur í fylgi flokka, sem yfirleitt eru þó miklu vægari en sveiflur flokkafylgis í skoðanakönnunum.
Erfiðleikar gamalla flokka við að taka á nýjum málum, sem koma ört til sögunnar, hafa almennt á Vesturlöndum leitt til eflingar utanflokkasamtaka, sem keppa við flokka um hylli og baka sér oft hatur sumra þeirra, svo sem reynslan hefur orðið hér á landi um flest umhverfissamtök.
Sérmálasamtök ganga vel meðan þau skilgreina sig sem utanflokkasamtök. Fari þau hins vegar að gæla við framboð, svo sem framboð aldraðra og öryrkja, sem nokkuð hefur verið rætt í vetur, fer samkvæmt erlendri reynslu illa fyrir þeim. Eins eða tveggja mála flokkar hafa litla von.
Hins vegar geta vel rekin utanflokkasamtök haft málefnalega meiri áhrif en kosningavélar þær, sem við þekkjum undir nafninu stjórnmálaflokkar.
Jónas Kristjánsson
FB