Hægt andlát hvalveiða.

Greinar

Reikna má með, að íslenzkar hvalveiðar verði sjálfdauðar á næstu árum. Veiðikvótar Alþjóða hvalveiðiráðsins fara minnkandi ár eftir ár. Fyrr eða síðar leiðir það til taprekstrar á veiðistöðinni í Hvalfirði.

Verulegar breytingar hafa orðið á skipun hvalveiðiráðsins. Áður fyrr sátu það einkum hvalveiðiríki, en upp á síðkastið hafa ríki gengið í það til að koma í veg fyrir hvalveiðar. Og þátttaka er öllum ríkjum opin.

Einn fulltrúi hvalveiðiríkja, Kanada, hefur sagt sig úr ráðinu. Í staðinn hafa komið Kína, Indland, Jamaica, St. Lucia, Dominica, Costa Rica, Uruguay, St. Vincent & Grenadines, – ríki, sem yfirleitt eru andvíg hvalveiðum.

Þetta leiddi þó ekki til neinnar byltingar á nýafstöðnum ársfundi hvalveiðiráðsins. Fulltrúar tóku yfirleitt mark á vísindanefnd ráðsins, sem lagði til aukna friðun ýmissa tegunda og svæða, án þess að taka mjög djúpt í árinni.

Tillögur um algert hvalveiðibann, algert hvalveiðibann á Norður-Atlantshafi nú eða eftir tvö ár voru allar felldar. Og í sumum tilvikum náðist samkomulag um heldur minni samdrátt en vísindanefndin hafði lagt til.

Þróunin er ljós. Grænfriðungum og öðrum andstæðingum hvalveiða virðist ekki ætla að takast að koma á algeru hvalveiðibanni. Hins vegar hefur hvalveiðiráðið tekið tillit til sjónarmiða þeirra og fer undan í flæmingi.

Um leið hefur losnað um spennuna á ráðinu. Hinar opinberu aðgerðir grænfriðunga eru ekki eins róttækar og áður. Deilumálin eru að falla í meira eða minna friðsaman jarðveg, hvað sem æstum einstaklingum kann að detta í hug.

Ísland hefur ásamt nokkrum öðrum ríkjum fengið illt umtal vegna hvalveiða. Það umtal ætti nú að minnka, þegar íslenzkar veiðar minnka í samræmi við kvóta alþjóðlegrar stofnunar, sem öll ríki eiga aðgang að.

Hins vegar má ljóst vera, að síminnkandi kvótar leiða einhvern tíma til þess, að ekki þykir lengur fært að halda úti stöðinni í Hvalfirði og útgerðinni, sem henni fylgir. Hvalveiðar eru deyjandi atvinnugrein.

Forstjóri hvalstöðvarinnar hefur kastað fram þeirri hugmynd, að Ísland segi sig úr hvalveiðiráðinu, væntanlega til að geta veitt meira en upp í kvóta ráðsins. Ástæða er til að vara sérstaklega við þessari hugmynd.

Við unnum okkar þorskastríð á friðunarstefnu og hagstæðu almenningsáliti í umheiminum. Við vinnum aldrei neitt hvalastríð á ofveiði og andstæðu almenningsáliti í umheiminum. Við skulum heldur tapa því í stríði í ró og næði.

Blaðstjórn braut lög.

Blaðstjórn Alþýðublaðsins og ráðamenn Blaðaprents brutu lög, þegar þessir aðilar stöðvuðu útkomu miðvikudagsblaðsins vegna efnis þess. Slíkt gat einungis gert skráður ábyrgðarmaður miðvikudagsblaðsins, Jón Hannibalsson.

Blaðstjórnin hefur sem betur fer séð að sér, enda ber hún enga efnisábyrgð samkvæmt prentrétti og er ekki málsaðili um, hvort efni sé prenthæft eða ekki. Auk ábyrgðarmanns gætu slíkir málsaðilar verið lögreglustjóri og dómstólar.

Og auðvitað reyndist stöðvaða blaðið vera skásta Alþýðublaðið, sem hefur sézt í mörg ár!

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið