Hingað til hefur hér á landi það fyrst og fremst verið framkvæmdavaldið, sem hefur abbast upp á önnur valdsvið þjóðfélagsins. Minna hefur farið fyrir dómsvaldinu, sem til skamms tíma var minnsti bróðirinn í þrenningu framkvæmdavalds, löggjafarvalds og dómsvalds.
Nú eru teikn á lofti um, að þetta sé að breytast. Forseti Hæstaréttar hefur leyft forsætisráðherra að flytja Alþingi skilaboð dómforsetans um, hvernig ekki sé rétt að fara þar með þingmál, sem spunnizt hafa af brottrekstri fræðslustjórans á Norðurlandi eystra.
Frá því er forsætisráðherra flutti Alþingi skilaboð forseta Hæstaréttar hefur hinn síðarnefndi haft bæði tíma og tækifæri til að leiðrétta ráðherrann. Þegar þetta er ritað, hafði hann enn ekki notfært sér það, svo að líta verður á skilaboðin sem rétt flutt á Alþingi.
Þessi uppákoma forseta Hæstaréttar var að vísu ekki framin í nafni Hæstaréttar sem slíks og það raunar sérstaklega tekið fram. Hins vegar er athyglisvert, að forseti réttarins skuli telja það í verkahring sínum að gefa út óbeint álit sitt á meðferð mála á Alþingi.
Forsætisráðherra flutti Alþingi skilaboð forseta Hæstaréttar, þegar Alþingi var að ræða frávísunartillögu, það er að segja tillögu um, hvort ræða skyldi eða ekki skyldi ræða frumvarp um, að Hæstiréttur tilnefndi menn í nefnd til að rannsaka svokallað Sturlumál.
Nú má það öllum vera ljóst, nema ef til vill forseta Hæstaréttar, að honum eða Hæstarétti kemur ekkert við, hvort Alþingi ákveður að ræða eða ræða ekki einhver frumvörp, sem þar koma fram. Það er að sjálfsögðu Alþingi sjálft, sem ákveður slíkt hjálparlaust.
Sjálfsagt er, að Alþingi verjist afskiptasemi forseta Hæstaréttar og samþykki að ræða málið. Hitt er svo allt annað mál, hvort niðurstaða þeirrar umræðu verður, hvort biðja eigi eða ekki eigi að biðja Hæstarétt um að tilnefna menn í rannsóknarnefnd Sturlumálsins.
Ef málið endar á, að Hæstiréttur fær frá Alþingi erindi, sem hann telur sig ekki hafa aðstæður til að sinna af formlegum ástæðum, á hann loks þá að svara því, að hann geti ekki skipað nefnd í mál, sem kunni að koma til kasta réttarins eftir venjulegri dómsmálaleið.
Hins vegar er sérkennilegt, að forseti Hæstaréttar skuli leyfa, að hafðar séu eftir sér yfirlýsingar um, hvort eðlilegt sé eða vafasamt, að á Alþingi sé lagt fram frumvarp um að biðja réttinn um að taka að sér algengt verkefni, það er að skipa menn í enn eina nefndina.
Merkilegra er þó, að þetta skuli vera innskot í málið á því stigi, er Alþingi er ekki að gera annað en að ræða tillögu um, hvort það sjálft eigi að ræða þetta frumvarp eða ekki. Formlega séð var Alþingi ekki einu sinni farið að ræða efnislega um frumvarpið sjálft.
Allra dularfyllst er þó, að afskipti forseta Hæstaréttar skuli berast í óáþreifanlegum og óstaðfestum símtölum manna í milli, í þessu tilviki hans og forsætisráðherra. Hingað til hefur rétturinn lítt notað símatæknina sem miðil dóma og annarra yfirlýsinga sinna.
Ef til vill er forseti Hæstaréttar að tileinka sér hin skjótvirku vinnubrögð, sem forsætisráðherra hefur hvatt til, að tekin verði upp í kerfinu. Ef til vill hefur hann smitazt af menntaráðherrum og borgarstjórum, sem hvassast hafa gengið á þann hátt til verka.
Hvað sem því líður, er öruggt, að Alþingi getur hvorki tekið mark á símaskilaboðum forseta Hæstaréttar, né neitað sér um að ræða Sturlufrumvarpið.
Jónas Kristjánsson
DV