Hæstiréttur úrskurðaði í dag, að nota megi skýra íslenzku í bloggi. Gaukur Úlfarsson mátti kalla Ómar R. Valdimarsson “aðalrasista bloggheima”. Þau orð féllu í líflegum orðaskiptum þeirra og annarra á netinu. Niðurstaðan er í samræmi við þá meginreglu skoðanaskipta í prentmiðlum, að þar megi nota skýra íslenzku. Nokkrir héraðsdómar á síðustu árum hafa vikið frá hefðinni, en meginreglan hefur verið þessi áratugum saman. Útilokað er að skiptast á skoðunum um samfélagsmál, ef ekki má kveða fast að orði. Dómur Hæstaréttar minnir fáfróða héraðsdómara á, að málfrelsi er enn við lýði hér á landi.