Hæstiréttur yfirstéttarinnar

Greinar

Þegar meirihluti Hæstaréttar sýknaði háskólaprófessor af kæru um gróft kynferðisofbeldi gegn dóttur hans, voru dómararnir að gæta hagsmuna yfirstéttarbróður síns. Þeir létu orð hans standa gegn orði dótturinnar og hirtu ekki um framburð annarra vitna.

Sjaldan hafa atvik verið eins ljós í sifjaspellsmáli og í þessu. Þriðju aðilar báru vitni um afbrotin, svo að meirihluti Hæstaréttar þurfti ekki að velja milli vitnisburðar prófessorsins og dóttur hans. Hann gat tekið mark á framburði vitna, en kaus að gera það ekki.

Röksemdafærsla verjanda prófessorsins til varnar meirihluta Hæstaréttar eftir niðurstöðuna, er bull og þvæla, því að hann einangrar málið við orð eins gegn orði annars. Sú einföldun gefur ranga mynd af málinu í heild. Árásirnar á Hæstarétt voru því sjálfsagðar.

Hæstiréttur hefur almennt ekki verið í góðum málum, síðan hinn sami verjandi skrifaði skammabók um dómstólinn. Hann hefur hvað eftir annað verið sneyptur af betri og æðri dómstólum úti í heimi. Og nú síðast er hann frægur af að hafa sýknað Kio Briggs.

Svo ógeðfellur er Hæstiréttur, að fyrir þremur árum kvað hann upp málamyndadóm yfir margföldum nauðgara og gaf honum stóran afslátt út á, að hann hefði á nauðgunartímanum skaffað fórnardýrinu mat og húsnæði. Slíkir dómarar eru tæpast með réttu ráði.

Þegar Hæstiréttur ýtir lýsingum vitna út af borðinu og talar um prófessorinn sem einhvern einfaldan og skaðlítinn gluggagægi, er hann að misþyrma staðreyndum málsins. Engin skýring er á því önnur en sú, að prófessorinn sé of fínn pappír til að hljóta kynóradóm.

Hér verður ekki farið út í lýsingar vitna á ógeðslegum háttum og atferli prófessorsins, sem er skjólstæðingur meirihluta Hæstaréttar, því að þær eru ekki prenthæfar. Hið sama má raunar segja um sannleikann um meirihluta Hæstaréttar, að hann er ekki prenthæfur.

Því er hér í þessum leiðara aðeins fjallað almennum og fjarlægum orðum um þá staðreynd, að Hæstiréttur hefur til varnar þekktum yfirstéttarmanni nauðgað stúlkunni andlega ofan á þá líkamlegu nauðgun, sem hún hefur mátt þola af hálfu föður síns.

Meirihluti Hæstaréttar hefur nauðgað fleirum en dóttur prófessorsins með stuðningi sínum við prófessorinn. Með dóminum hefur verið hindrað, að fleiri sifjaspell verði kærð hér á landi. Hæstiréttur hefur sagt, að ekki hafi neina þýðingu að kæra slík mál.

Með því að taka mál, þar sem atvik voru óvenjulega skýr, og láta það leiða til sýknunar, er Hæstiréttur að segja öllum þeim, sem á eftir hefðu viljað koma, að leið laga og réttar sé ekki kleif þolendum stórbrotamanna á sviði sifjaspells. Þeir verði að leita annarra leiða.

Staða íslenzkra sifjaspellsmála hefur hingað til verið þannig, að tíundi hluti þeirra hefur verið kærður og tíundi hluti kærðra mála endað með sakfellingu. Það er um það bil einn hundraðasti raunverulegra sifjaspella. Nú mun þetta hlutfall lækka niður í 0,0%.

Hæstiréttur hefur frá öndverðu verið hallur undir yfirvöldin í landinu og yfirstéttina. Sýknudómur meirihlutans í sifjaspellsmálinu er einfalt dæmi um, að Hæstiréttur fer meiri silkihönzkum um prófessora en börn. Hæstiréttur er tæki í höndum yfirstéttarinnar.

Dómur meirihluta Hæstaréttar í sifjaspellsmáli prófessorsins er svo fráleitur, að hann verður ekki skýrður á annan hátt en sem einföld hagsmunagæzla.

Jónas Kristjánsson

DV